Efnahagsaðgerðir vegna kjarasamninga

34. fundur
Fimmtudaginn 11. nóvember 1993, kl. 14:12:35 (1250)

[14:12]
     Halldór Ásgrímsson :
    Virðulegur forseti. Hér er komin upp mjög sérkennileg staða á Alþingi. Hæstv. sjútvrh. sagði í umræðum hér fyrir nokkru að hann væri efnislega sammála þeim brtt. sem stjórnarandstaðan hefur lagt fram og nú hafa verið dregnar til baka til 3. umr. Hæstv. sjútvrh. staðfesti jafnframt að það gæti í mesta lagi dregist í nokkra daga, eins og ég skildi orð hans, að tekin væri afstaða til þessa máls. Hann vitnaði hins vegar til þess að það væri ákvæði um þetta mál í frv. til laga um stjórn fiskveiða sem enn þá er hjá ríkisstjórninni og er ekki komið til þingflokka, hvað þá að það sé komið hér inn á Alþingi. Og það vita nú allir að jafnvel þótt frv. væri lagt fram hér á hv. Alþingi þá tæki allmargar vikur að afgreiða það. Ég á ekki von á því að það verði afgreitt á örfáum dögum eða nokkrum vikum.
    Það hefur verið staðfest að það eru í gildi lög í landinu um Hagræðingarsjóð og þau lög segja að stjórn sjóðsins beri að selja þessar aflaheimildir. Nú stendur það fyrir dyrum, eftir því sem við í stjórnarandstöðunni höfum fengið upplýst, að stjórnarmeirihlutinn ætli að fella þess brtt., jafnvel þótt hæstv. sjútvrh. segist vera sammála þeim. Og það er afar athyglisvert að hæstv. sjútvrh. sér ekki ástæðu til að vera viðstaddur atkvæðagreiðsluna, sem segir sína sögu og væntanlega staðfestir það að hann hefur endanlega orðið undir í málinu og aðrir ráðherrar í ríkisstjórninni ætla að hafa skoðanir hans að engu. Og það er svo sem ekki í fyrsta skipti sem það gerist.
    Ég tel afar nauðsynlegt að hæstv. forsrh. komi hér og upplýsi stöðu þessa máls. Hann hefur áður gefið yfirlýsingar í málinu. Hann gaf yfirlýsingar ekki sumarið sem leið heldur sumarið þar áður, í ágústmánuði, um að aflabresturinn yrði þá bættur með þessum aflaheimildum. Ekki með því að úthluta þeim til aðila í sjávarútvegi heldur með því að greiða þessum aðilum samsvarandi fjárhæð í peningum metið til verðs. Síðan leið og beið og ekkert gerðist í málinu. Því var neitað að afgreiða það hér á Alþingi en síðan gripið til þess ráðs að afgreiða það með bráðabirgðalögum og nú á að staðfesta þau bráðabirgðalög.
    Síðan hefur ríkisstjórnin lýst því yfir að frv. til laga um stjórn fiskveiða verði lagt fram strax í upphafi þings og verði forgangsmál hér á Alþingi og látið í það skína að það muni verða afgreitt á fyrstu vikum þingsins. Enn bólar ekki á málinu. En ég vildi spyrja hæstv. forsrh., hvert er hans mat á þeim deilum sem nú eru uppi ríkisstjórninni. Verður frv. um þetta efni lagt fram næstu daga? Hvenær hyggst ríkisstjórnin beita sér fyrir því að það verði afgreitt og hvernig hyggst ríkisstjórnin koma í veg fyrir það, eins og mér skilst að sé hennar ætlan, að núverandi lögum um Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins verði framfylgt? Ég tel að að það skipti sköpum í þessu máli að þetta verði upplýst, því annars eru hv. þm. sem greiða þessu atkvæði --- ég fagna því nú út af fyrir sig að hæstv. sjútvrh. skuli vera hér mættur og væri gott að fá líka hans álit á málinu --- hvernig þeir hyggist koma því þannig fyrir að ríkisstjórnin geti staðið við sínar yfirlýsingar í þessu máli að felldum þessum brtt.