Efnahagsaðgerðir vegna kjarasamninga

34. fundur
Fimmtudaginn 11. nóvember 1993, kl. 14:18:21 (1251)

[14:18]
     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Hæstv. forseti. Eins og hv. þm. vakti reyndar athygli á þá er hæstv. sjútvrh. kominn í salinn og ástæðulausar þær vangaveltur sem uppi voru um fjarveru hans. Hann hafði einmitt haft fullan hug á því að vera hér í salnum og hafði þess vegna m.a. beðið um og óskað eftir því að atkvæðagreiðslunni yrði frestað þannig að hann gæti flutt ávarp á dómaraþingi. Hann vildi eins og við hinir hv. þm. vera viðstaddur þessa atkvæðagreiðslu.
    Varðandi það sem hv. þm. nefndi, þá hefur það nú verið rætt áður um Hagræðingarsjóðinn og reyndar um þær fyrirhuguðu jöfnunaraðgerðir sem voru uppi á sínum tíma. Það varð reyndar ekki úr því fyrirkomulagi sem ég hafi kynnt að mundi verða stefnt að, m.a. vegna þess að það skapaðist mikil andstaða við þá aðferð í greininni sjálfri. Síðan gerðist það á haustdögum að gripið var til efnahagsráðstafana, m.a. urðu gengisbreytingar sem bættu stöðu sjávarútvegsins og fleiri aðgerðir sem þá var gripið til. Það

var þá mat okkar í ríkisstjórn að þar með væri sá þáttur afgreiddur. Og það var af þeim ástæðum sem stjórnarmeirihlutinn var ekki inni á því að afgreiða tillöguna sem hv. þm. ræddi um og stjórnarandstaðan beitti sér fyrir á vordögum síðast.
    Þegar kom hins vegar að því að ljúka kjarasamningum, eftir að þing var farið, þá varð ljóst að afgreiðsla á hagræðingarsjóðsmáli gæti orðið einn af meginþáttum í að tryggja það að kjarasamningar næðu fram að ganga og þá var ákveðið að það yrði einn af þeim þáttum sem ríkisstjórnin tryggði lagagrundvöll fyrir. Ég tel að þetta sé stjórnskipulega allt saman mjög eðlilegt. Ef það hefði hins vegar verið svo að ríkisstjórnin hefði ekki viljað taka málið til efnislegrar afgreiðslu, kosið að gera það með bráðabirgðalögum og hefði þegar ákveðið það þegar þinginu lauk, þá hefði það verið óeðlileg málsmeðferð. En engin slík ákvörðun lá fyrir þegar þinginu lauk. Það lá ekki fyrir fyrr en síðar að þetta gæti orðið eitt af meginatriðunum til þess að tryggja það að kjarasamningar mættu ná fram að ganga.
    Þau tvö mál sem hafa verið nefnd, um fiskveiðistjórnun og þróunarsjóð hafa verið í meðferð hjá þingflokkum stjórnarflokkanna og ég vona að þeirri meðferð ljúki sem allra fyrst. Það er rétt hjá hv. þm. að tíminn hefur liðið og það er nauðsynlegt að fá botn í það mál. Og þegar sú afgreiðsla hefur gengið fram hjá þingflokkunum og málið komið fram, er það okkar álit að þróunarsjóðsfrv. eigi að fá sem hraðasta meðferð í þinginu og munum við að sjálfsögðu óska eftir góðri samvinnu við stjórnarandstöðuna um þá málsmeðferð.