Efnahagsaðgerðir vegna kjarasamninga

34. fundur
Fimmtudaginn 11. nóvember 1993, kl. 14:21:23 (1252)


[14:21]
     Halldór Ásgrímsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég vil nú leiðrétta það hjá hæstv. forsrh. að það lá fyrir loforð um það frá hæstv. ríkisstjórn að bæta aflabrestinn á síðasta sumri. Og hæstv. forsrh. lýsti því yfir að það yrði gert með tilteknum hætti. En það sem skiptir máli núna er að það er ekki nóg fyrir Alþingi að fá yfirlýsingu forsrh. um að þetta verði rætt á allra næstu dögum í þingflokkunum og menn muni halda áfram að skoða þetta. Það liggur líka fyrir, hæstv. forsrh., að jafnvel þótt menn haldi áfram að skoða þetta næstu daga, þá hefur hæstv. umhvrh. lýst því yfir að það liggi ekkert á í þessu máli og það ganga sögusagnir um það að það verði jafnvel ekki lagt fram á þessu þingi. Og þess vegna bið ég hæstv. forsrh. að svara þeirri spurningu: Hvernig hyggst ríkisstjórnin koma í veg fyrir það að núverandi lögum um Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins verði framfylgt, enda verði þeim ekki breytt á næstunni? Ég held að það liggi alveg ljóst fyrir, hæstv. forsrh., að jafnvel þó svo ólíklega vilji til að ríkisstjórnin komi sér saman um málið, þá þýðir það að málið verður ekki afgreitt fyrr en í byrjun næsta árs í fyrsta lagi og þess vegna vaknar sú spurning hvernig ríkisstjórnin ætlar að bregðast við í málinu. Hefur ríkisstjórnin farið þess formlega á leit við stjórn sjóðsins að hún framfylgi ekki lögunum og ætlar ríkisstjórnin að endurtaka þær óskir að lokinni þessari atkvæðagreiðslu og á hvaða grundvelli?