Efnahagsaðgerðir vegna kjarasamninga

34. fundur
Fimmtudaginn 11. nóvember 1993, kl. 14:31:18 (1259)

[14:31]
     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég hafði reyndar áður svarað þessu atriði varðandi áhrif þess að brtt. sú sem hér er til umræðu m.a. verði felld, hvaða áhrif það hefði sérstaklega á störf stjórnar Hagræðingarsjóðs. Ég hafði áður svarað því. Ég vek athygli á því að þar sem gild tímamörk voru varðandi forgangsúthlutun til sveitarfélaga, þar hefur stjórn sjóðsins brugðist við vegna þess að þar voru gild og tilgreind tímamörk.
    Þau eru ekki tímabundin með þeim hætti, þótt talað sé um upphaf fiskveiðiárs. Ég tel þess vegna að það sé eðlilegt fyrir stjórn sjóðsins, með hliðsjón af því að ríkisstjórnin hefur lýst því yfir að þróunarsjóðsmálið komi fram þar sem þetta verði einn af þáttunum í þeirri heildarmynd, þá hafi stjórn sjóðsins svigrúm og rétt til þess að bíða með úthlutun á þeim heimildum.
    Varðandi seinna atriðið sem hv. þm. nefndi, þá var ég fyrir mitt leyti að lýsa þeirri skoðun minni að þó að brtt. yrði felld, þá væri ekkert sem mælti á móti því stjórnskipulega, og eftir réttum stjórnskipunarreglum, að það mál gæti komið inn sem meginþáttur í öðru frv. bundið af skilyrðum sem í því frv. eru sett að öðru leyti. Þess vegna mun atkvæðagreiðslan hér á eftir ekki hafa nein áhrif á möguleika ríkisstjórnarinnar í þeim efnum. Auðvitað er það svo að forseti þingsins og þingið sjálft skoðar málið svo jafnframt eins og öll önnur.