Niðurstöður fundar leiðtoga Evrópuráðsins í Vínarborg

34. fundur
Fimmtudaginn 11. nóvember 1993, kl. 15:10:07 (1265)

[15:10]
     Lára Margrét Ragnarsdóttir :
    Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að fá að þakka forsrh. fyrir skýrslu þessa og hans framlag á Vínarfundinum. Eins og hæstv. forsrh. benti á, þá hefur mikilvægi Evrópuráðsins sjaldan verið meira, enda er innganga ríkis í ráðið viðurkenning á að viðkomandi ríki uppfylli lágmarkskröfur um lýðræði. Evrópuráðið er elsti vettvangur um sameinuða Evrópu og þrátt fyrir aukna samvinnu innan álfunnar er Evrópuráðið enn eini samevrópski vettvangur fjölda þjóða. Aðildarríki Evrópuráðsins eru alls 32, en auk þess eiga átta lönd gestaaðild og bíða fullrar aðildar. EB og EFTA-löndin, sem væntanlega munu eiga nána samvinnu í framtíðinni, eru alls 19. Þess vegna mun Evrópuráðið verða eini samevrópskri vettvangur 20 ríkja á næstu árum.
    Á undanförnum árum hefur fjöldi ríkja í Evrópuráðinu þrefaldast og blasir þannig við fjöldi nýrra verkefna og vandamála sem m.a. eru sprottin af því að nýju ríkin hafa litlar lýðræðislegar hefðir eins og þau ríki sem fyrir voru og þurfa því mörg hver mikla aðstoð. Versnandi efnahagsástand í Vestur-Evrópu gerir okkur erfiðara fyrir en ella að veita aðstoð og stuðla að bættum efnahag þessara ríkja. Við höfum nefnilega tilhneigingu til þess að hyggja fyrst að okkur sjálfum. Með tilliti til skorts á lýðræðislegri hefð hinna nýju ríkja er mannréttindahlutverkið enn mikilvægara en fyrr í sögu Evrópuráðsins og má jafnvel segja að ráðið hafi átt sinn þátt í að tryggja frið í þessum ríkjum. Ég tek undir orð hv. þm. Kristínar Ástgeirsdóttur um mikilvægi þess að meðlimir ráðsins geti í nefndarstörfum sínum fylgst vel með því sem er að gerast innan hinna nýju aðildarríkja og einnig að mikilvægi leiðbeinendahlutverks ráðsins í því starfi sem fer fram á þingum þess er ómetanlegt.
    Af þeim kynnum sem ég hef fengið af nýjum aðildarríkjum tel ég þessi lönd afar mismunandi langt

komin í lýðræðisátt og eiga sum þeirra langt í land hvað snertir hugarfarsbreytingar og þróun á hinum ýmsu sviðum þjóðlífsins. Menning þessara ríkja og túlkun þeirra á mannréttindum er ekki sú sama og við skynjum í Vestur-Evrópuríkjum og getur það m.a. verið ein skýring á óréttlátri meðferð, að okkar mati, á minnihlutahópum og þjóðabrotum. Á þessum sviðum og fjölmörgum öðrum þarfnast þessi nýju aðildarríki leiðbeininga sem Evrópuráðið mun geta veitt með þeirri víðtæku starfsemi sem fram fer innan þess. Það er því ljóst að mikilvægi og verkefni Evrópuráðsins mun aukast í næstu framtíð og munu fulltrúar þeirra aðildarríkja sem lengi hafa búið við lýðræðislegt stjórnarfar hafa mjög mikilvægu hlutverki að gegna á næstu árum. Þar á meðal eru íslensku fulltrúarnir og vil ég því sérstaklega benda á það stóra hlutverk sem við munum gegna á næstu árum í þá átt að aðstoða þessi nýju ríki í átt til framfara.