Hæstiréttur Íslands

34. fundur
Fimmtudaginn 11. nóvember 1993, kl. 16:30:23 (1276)

[16:30]
     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar) :
    Herra forseti. Þessi rökstuðningur sem hv. þm. kom með núna var afskaplega lítill. Ef þingmaðurinn ætlar að halda sig við það að vegna þess að ekki hafi verið búið að ákveða á fjárlögum greiðslur, þá hefðu menn af þeim ástæðum átt að neita greiðslum sem byggðar voru á túlkun frá Kjaradómi, þá er hann á hálum ís. Ég hef það ekki við höndina, en ég geri ráð fyrir því að um leið og Kjaradómur hafi áður hvenær ársins sem er kveðið upp dóm, þá hafi hvaða fjmrh. sem er, líka hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson, þegar mánuðinn þar á eftir greitt laun samkv. þeim kjaradómi þó ekki hafi verið fjárupphæðir á fjárlögum til þess að greiða slíkt, hvenær sem er, og með sama hætti og hv. þm. Svavar Gestsson hefur samþykkt og staðið að því í stjórn Ríkisspítalanna að greiða 60 millj. til hjúkrunarfræðinga án þess að heimildir væru fyrir því í fjárlögum. Auðvitað er það svo að þetta er viðurkennd verklagsregla og ekki hægt að hafa það með öðrum hætti. Ef þetta var byggt á því, hvernig sem muldur er nú í salnum, eins og ég byggi á að hér hafi verið um túlkun Hæstaréttir á kjaradómi að ræða, hvernig ætti að túlka hann, þá verður auðvitað gagnvart fjárlögunum að fara nákvæmlega að með sama hætti og gert er jafnan þegar Kjaradómur hefur kveðið upp úrskurð eða þegar fjmrh. á miðju ári hefur gert samninga við sína starfsmenn jafnvel um eftirágreiðslur eða fyrirframgreiðslur án þess að nokkuð hafi veri gert ráð fyrir því á fjárlögum. Þetta þekkja menn afskaplega vel og þarna voru menn á hæpnu róli í sínum rökstuðningi.