Hæstiréttur Íslands

34. fundur
Fimmtudaginn 11. nóvember 1993, kl. 16:32:00 (1277)

[16:32]
     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er auðvitað álitamál hvort við eigum að halda áfram að ræða þetta við hæstv. forsrh. vegna þess að hann býr til slíkar kenningar í ræðustólnum í írafári sínu að þær eru stórhættulegar sem fordæmi væri ráðherra tekinn alvarlega. Það er alveg rétt hjá hæstv. ráðherra að hefðir eru fyrir því að ef um formlega kjarasamninga er að ræða, þá séu þeir greiddir þótt ekki hafi verið veittar fjárveitingar. Hér var ekki um það að ræða, m.a. samkvæmt orðum hæstv. ráðherra sjálfs. Hér var eingöngu um það að ræða að tiltekinn starfsmannahópur framvísaði yfirvinnureikningum. Hann sagði að vísu: Ja, ég get lesið það í kjaradómi að ég geti framvísað yfirvinnureikningum. Hvað hefði forsrh. sagt ef allir þeir sem hefðu heyrt undir Kjaradóm hefðu farið framvísa yfirvinnureikningum? Auðvitað hefði forsrh. sagt nei. En það hefðu allir getað framvísað yfirvinnureikningum með sama hætti og hæstv. forsrh. er hér að réttlæta að hafi verð eðlilegt af hálfu Hæstaréttar. Þingmenn hefðu getað framvísað yfirvinnureikningum. Prestar hefðu getað framvísað yfirvinnureikningum og aðrir þeir sem heyra undir Kjaradóm. Þessar röksemdir standast því einfaldlega ekki, hæstv. forsrh., og enn á ný minni ég á mótsögnina við það hvernig Veðurstofan, þar sem líka er farið að greiða mönnum viðbótarlaun, kallað bakvaktir en ekki yfirvinna, er afgreidd þannig af hálfu fjmrn. að það á að skera niður á móti.
    Ég vil svo einnig segja að það er alveg rétt hjá hæstv. forsrh. og ég ræði það kannski hér á eftir að það á ekki að láta menn gjalda þess alla ævi hvað þeir hafa gert á stúdentsárum. Það eru ekki mín rök og verður ekki í þessu máli. En menn standa hins vegar frammi fyrir því hvort það kunni virkilega að vera rétt að a.m.k. tveir af núv. dómurum í Hæstartétti hafi verið valdir inn í réttinn af pólitískum ástæðum.