Meðferð opinberra mála

34. fundur
Fimmtudaginn 11. nóvember 1993, kl. 17:00:57 (1285)

[17:00]
     Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) :

    Herra forseti. Það frv. sem ég mæli hér fyrir, um breytingar á meðferð opinberra mála, er flutt í tengslum við tvö önnur frv., eins og áður hefur komið fram, frv. til laga um breytingar á Hæstarétti Íslands og frv. til laga um breyting á lögum um meðferð einkamála, flutt í þeim tilgangi að greiða fyrir meðferð áfrýjunarmála.
    Helsta markmiðið með þessu frv. til laga um breyting á lögum um meðferð opinberra mála er að einfalda og flýta málsmeðferð áfrýjaðra mála eftir föngum. Reynt er að samræma meðferð opinberra mála meðferð áfrýjaðra einkamála samkvæmt því frv. sem ég hef áður vísað til í því efni. En auk þessara atriða miða ákvæði frv. að því að draga úr fjölda áfrýjana í tilvikum þar sem tilgangur með málskoti er lítill sem enginn og mikilvægi máls er takmarkað.
    Þann 22. maí 1987 fullgilti íslenska ríkið viðauka nr. 7 frá 22. nóv. 1984 við Evrópusamning um verndun mannréttinda og mannfrelsis frá árinu 1950, en í 2. gr. þess viðauka er kveðið á um tiltekin atriði varðandi heimildir sakfellds manns til að leita endurskoðunar á máli sínu fyrir æðra dómi. Gildandi reglur um þetta atriði hafa ekki sætt athugun gagngert af tilliti til þessarar skuldbindingar ríkisins samkvæmt mannréttindasáttmála Evrópu. Ákvæði frv. taka mið af þeim skuldbindingum sem felast í framangreindum samningi.
    Helstu breytingar á frv. frá gildandi lögum eru í fyrsta lagi að eins og í gildandi lögum er gengið út frá þeirri meginreglu að sakfelldur maður eigi að öðru jöfnu rétt á að leita endurskoðunar á sakfellingu og viðurlögum á hendur sér. Í frv. eru þó ákvæði um að mál um minni háttar brot geti ekki sætt áfrýjun til Hæstaréttar nema með leyfi réttarins. Þetta eru mál þar sem ákærða hefur hvorki verið gert að sæta frjálsræðissviptingu né sekt eða eignaupptöku sem fer fram yfir áfrýjunarfjárhæð í einkamálum.
    Í öðru lagi miðast ákvæði frv. við það að þótt takmarkanir séu gerðar á rétti til áfrýjunar á dómi í minni háttar málum verði endurskoðun æðra dóms engan veginn útilokuð, því sakborningur geti leitað áfrýjunarleyfis þótt viðurlög á hendur honum séu innan þeirra marka sem áður getur. Á þennan hátt gæti endurskoðun á héraðsdómi einnig átt sér stað í minni háttar málum og þá í sambandi við ákvörðun Hæstaréttar um hvort leyfi yrði veitt til áfrýjunar en eftir atvikum yrði leyfið veitt ef breyting á niðurstöðu þætti ekki ósennileg eða málið varðaði mikilsverða hagsmuni.
    Í þriðja lagi er stefnt að því með frv. að komið verði í veg fyrir að beint mat verði lagt fyrir Hæstarétti á sönnunargildi munnlegs framburðar sem hefur aðeins verið gefinn fyrir héraðsdómi. Samkvæmt frv. mundi Hæstiréttur ekki endurmeta niðurstöðu héraðsdómara sem væri byggð á slíkum framburði, nema því aðeins að munnleg skýrsla væri gefin fyrir Hæstarétti. Telji Hæstiréttur að líkindi væru fyrir því að mat héraðsdómara á sönnunargildi munnlegs framburðar geti verið rangt svo einhverju skipti og viðkomandi hefur ekki gefið munnlega skýrslu fyrir Hæstarétti, þá gerir frv. ráð fyrir að Hæstiréttur geti ómerkt héraðsdóm og lagt fyrir að sönnunarfærsla verði endurtekin eftir þörfum í héraði og dómur gangi þar á ný.
    Í fjórða lagi gerir frv. ráð fyrir allnokkrum breytingum á meðferð opinberra mála fyrir Hæstarétti en tilgangur þeirra er að einfalda og flýta meðferð þeirra fyrir dóminum.
    Herra forseti. Ég hef þá í aðalatriðum gert grein fyrir þeim breytingartillögum sem fólgnar eru í frv. og ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. allshn.