Meðferð opinberra mála

34. fundur
Fimmtudaginn 11. nóvember 1993, kl. 17:05:19 (1286)

[17:05]
     Svavar Gestsson :
    Herra forseti. Við þingmenn Alþb. flytjum hér í þinginu og þegar hefur verið mælt fyrir því og því vísað til nefndar, frv. til laga um breytingu á lögum um meðferð opinberra mála, þar sem gert er ráð fyrir að breyta nokkuð stöðu ríkissaksóknara þannig að hann verði aðeins skipaður til takmarkaðs tíma í senn. Ástæðurnar fyrir þeirri tillögu eru margvíslegar. Við teljum að það sé óhjákvæmilegt að setja reglur um þessi efni. Það má auðvitað hugsa sér að beita aðhaldi á annan hátt en með takmörkunum á skipunartíma ríkissaksóknara. Það má hugsa sér dómnefndir og fleira í þeim efnum. En aðalatriðið í okkar huga er það að á þessu vandamáli verði tekið, sem er ríkissaksóknari.
    Ég tek svona til orða vegna þess að hér er um að ræða stórt og valdamikið embætti sem fer með ákæruvaldið fyrir hönd ríkisins. Það má vissulega segja að það hafi verið mikil framför þegar ákæruvaldið var flutt úr hendi dómsmrh. til sjálfstæðs embættismanns á sínum tíma. Eins og allir hér inni vita þá var það þannig að dómsmrh. hafði með áfrýjunarvaldið að gera fyrir hönd ríkisins og það voru miklar deilur um það hvernig hann fór með það, oft og tíðum. Sérstaklega voru þær deilur hatrammar á árunum kringum 1930 þegar Jónas Jónsson, kenndur við bæinn Hriflu í Suður-Þingeyjarsýslu, fór með starf dómsmrh. Í framhaldi af því komu upp hugmyndir um að þessu fyrirkomulagi ætti að breyta og ætti að skipa embættismann í málið. Þegar þær umræður fóru fram hér í þessari virðulegu stofnun, fyrir 50 árum eða svo, þá hreyfðu ýmsir þeim athugasemdum að það væri í raun og veru slæmt að gera æviráðinn embættismann að þessu áfrýjunarvaldi af því að þar með missti hann hið lýðsræðislega aðhald sem dómsmrh. hefur og það er út af fyrir sig rétt sjónarmið. Þess vegna fluttum við alþýðubandalagsmenn þetta frv., við vildum að ríkissaksóknari fengi þetta lýðræðislega og faglega aðhald sem mönnum fannst að gæti vantað þegar verið var að ræða um breytingar á lögunum um ríkissaksóknara á sinni tíð.
    Ég legg á það mikla áherslu, hæstv. forseti, fyrir hönd þeirra sem flytja þetta frv. sem ég var hér að tala um, að það fái meðferð um svipað leyti og það frv. sem hæstv. dómsmrh. var að mæla fyrir hér áðan. Það er óhjákvæmilegt vegna þess að það er ákaflega mikil gagnrýni á þetta kerfi hjá okkur. Það er ekki bara gagnrýni á það að mál liggi lengi sem fara inn í þetta kerfi á annað borð sem bíða t.d. meðferðar í Hæstarétti sem hér hefur verið til umtals, heldur er líka talsverð gagnrýni á það að ekki verði betur séð en að beitt sé geðþóttaákvörðunum þegar niðurstöður fást um það hvenær mál eru höfðuð. Það er mjög alvarlegur hlutur þegar slíkt er uppi og kemur fyrir í ýmsum málum í seinni tíð. Um þau efni hafa t.d. verið blaðaskrif að undanförnu. Ég verð að segja alveg eins og er að ég tel að þau blaðaskrif séu með þeim hætti að það sé út af fyrir sig engin ástæða til að vera að endurtaka þau hér en margt er þó þannig að það vekur til umhugsunar og vekur áhyggjur að þetta kerfi sé ekki nógu gott eins og það er.
    Þess vegna legg ég á það mjög mikla áherslu að um leið og þetta frv., sem hæstv. dómsmrh. mælti fyrir áðan, fær meðferð, þá verði fjallað um það frv. sem við alþýðubandalagsmenn flytjum.
    Í greinargerð þessa frv., hæstv. forseti, koma fram fjölmargar upplýsingar og ég vil þakka fyrir þær. Á bls. 9 til og með 13 með þessu frv. eru fjölmargar ágætar og gagnlegar upplýsingar sem er þarflegt fyrir okkur þingmenn sem reynum að skoða þessi mál aðeins að hafa til hliðsjónar þegar við tökum afstöðu til frumvarpsins og efnis þess. Ég vil hins vegar, um leið og málið kemur til meðferðar, spyrja hæstv. dómsmrh. að því, hvenær þess er að vænta að réttarfarsnefnd ljúki heildarendurskoðun á reglum í réttarfarslögum um áfrýjun héraðsdóma til Hæstaréttar og meðferð áfrýjunarmála þar fyrir dómi og ljúki heildarendurskoðun laganna um meðferð opinberra mála. Ég held að það væri mjög æskilegt að fá um það upplýsingar. Ég man heldur ekki til þess að hæstv. ráðherra hafi áðan gert grein fyrir því hverjir sitja í réttarfarsnefnd. Ég held að það væri gott að það yrði dregið hér inn sem hluti af málinu en þess er ekki getið að ég best fæ séð í greinargerð frv.
    Ég legg sem sagt áherslu á það, hæstv. forseti, að frv. okkar alþýðubandalagsmanna fái meðferð um leið og þetta frv., um leið og ég legg tvær spurningar fyrir hæstv. dómsmrh.