Tilboð ríkisstjórnarinnar í GATT-viðræðunum

35. fundur
Mánudaginn 15. nóvember 1993, kl. 15:05:59 (1289)

[15:05]
     Jón Helgason :
    Hæstv. forseti. Hinn 10. jan. 1992 las hæstv. forsrh. samþykkt ríkisstjórnarinnar um stöðu GATT-viðræðna þar sem mörkuð var stefna ríkisstjórnarinnar í þeim viðræðum. Fyrir nokkrum vikum óskaði ég eftir því á fundi utanrmn. að þingmenn fengju upplýsingar um hvernig þessari samþykkt hefði verið fylgt eftir og hvernig tekist hefði að ná þeim ákvæðum sem þar voru sett fram. Þrátt fyrir það að vel væri tekið undir að gefa þessar upplýsingar þá hafa þær ekki borist enn.
    Nú berast hins vegar fréttir um að hæstv. utanrrh. og hæstv. landbrh. séu á löngum samningafundum um þetta málefni og í dag hafi átt að senda út einhverja nýja samþykkt ríkisstjórnarinnar. Ég vil því spyrja hæstv. forsrh. hvort nú sé verið að hverfa frá þeirri samþykkt sem ríkisstjórnin kynnti Alþingi 10. jan. 1992, en þó fyrst og fremst hvort hinar nýju tillögur verða sendar til GATT-viðræðunefndar án þess að þær verði kynntar hv. alþingismönnum og ræddar í nefndum þingsins, utanrmn. og landbn.