Héraðsskólinn í Reykjanesi

36. fundur
Mánudaginn 15. nóvember 1993, kl. 15:43:46 (1313)

[15:43]
     Páll Pétursson :

    Frú forseti. Ég vil nota þetta tækifæri til að vekja athygli hæstv. menntmrh. á málefnum skólabúðanna á Reykjum í Hrútafirði. Þar stendur að sumu leyti áþekkt á eins og í Reykjanesi, þar sem gamall héraðsskóli hefur verið tekinn til annarrar notkunar og skólanum breytt í skólabúðir. Þangað sækja grunnskólanemendur hvaðanæva af landinu til stuttrar dvalar sem mér skilst að sé ákaflega vel lukkuð og mikil ánægja með þá starfsemi sem þar fer fram. Nú er í undirbúningi að sveitarfélögin taki við grunnskólanum og ég vil biðja hæstv. menntmrh. sérstaklega fyrir skólabúðirnar á Reykjum í Hrútafirði að þær dagi ekki uppi í þeirri skipulagsbreytingu sem væntanlega verður á grunnskólanum.