Héraðsskólinn í Reykjanesi

36. fundur
Mánudaginn 15. nóvember 1993, kl. 15:45:04 (1314)

[15:45]
     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil taka undir það sem fram hefur komið í máli sumra ræðumanna og lýsa yfir nokkurri undrun á því að hæstv. menntmrh. skuli ekki hafa tekið til umfjöllunar tillögur nefndarinnar sem sett var á laggirnar á sínum tíma og átti að gera tillögur um framtíð Héraðsskólans í Reykjanesi. Það er, eins og kom fram hjá hv. 3. þm. Vestf., mjög langt síðan tillögurnar lágu fyrir og auðvitað vissum við þingmenn Vestf. um efnisatriði í þeim tillögum. Ég get sagt fyrir mitt leyti að ég var sáttur við þessa tillögugerð og batt nokkrar vonir við það að ráðuneytið mundi hrinda tillögum þessum í framkvæmd þannig að þær gætu komist inn á fjárlög fyrir næsta ár. En það er greinilegt að því miður stefnir ekki í að svo verði þannig að það líði einn vetur enn í myrkrinu inni í Ísafjarðardjúpi sökum þess hversu seint og slælega, að því er virðist, er unnið í menntmrn.