Auglýsing frá Morgunblaðinu

36. fundur
Mánudaginn 15. nóvember 1993, kl. 15:51:51 (1319)

[15:51]
     Valgerður Sverrisdóttir :
    Hæstv. forseti. Mig langar aðeins til að koma að athugasemd í sambandi við þetta mál sem varðar 5. gr. útvarpslaga, eins og hún var samþykkt hér á Alþingi sl. vor. En þar stendur, með leyfi forseta:
    ,,Auglýsingar skulu vera auðþekkjanlegar sem slíkar og vera skýrt afmarkaðar frá öðru dagskrárefni með myndskilti eða hljóðmerki og skulu þær fluttar í sérstökum almennum auglýsingatímum á milli dagskrárliða``.
    Það sem ég er að velta fyrir mér er það hvort eitthvert merki var eftir þennan auglýsingatíma því miðað við það sem hér hefur komið fram þá var um auglýsingu að ræða og það kom reyndar fram í dagskrá líka. En eftir því sem ég best man, hæstv. forseti, þá var ekkert merki á eftir. Ég hef engar athugasemdir við það í sjálfu sér, enda er það alveg í samræmi við lög að stofnunin afli sér tekna á þennan hátt, en þá þarf að fara eftir lögunum.