Auglýsing frá Morgunblaðinu

36. fundur
Mánudaginn 15. nóvember 1993, kl. 15:55:24 (1321)

[15:55]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Í fyrravor voru afgreiddar breytingar á útvarpslögum í þessari virðulegu stofnun þar sem m.a. var samstaða um lagaákvæði varðandi auglýsingar og kostun, mjög góð samstaða. Ég taldi að það væri mjög mikilvægt að samstaða næðist um þennan þátt í útvarpslögunum. Nú hefur það hins vegar gerst að menn hafa farið þarna alveg á ystu brún, teflt á tæpasta vað, með því að þessi þáttur sem þarna er um að ræða, Morgunblaðið, er kynntur sem dagskrárefni en hann er ekki kynntur sem auglýsing í dagskrám eða dagskrárbirtingum Ríkisútvarpsins. Í annan stað er þess ekki gætt að marka þennan þátt með þeim hætti sem gera verður ráð fyrir að sé í raun og veru krafist með útvarpslögunum. Þess vegna liggur alveg beint við að spyrja, eins og hv. 1. þm. Norðurl. v.: Er málið þannig að stórfyrirtæki geti keypt sig þarna inn, keypt heilu klukkutímana? Mér sýnist að það sé augljóst mál að svo sé. Þess vegna skora ég á menntmrh. að endurskoða reglugerð um rekstur og auglýsingar útvarpsins með hliðsjón af þessu hrapallega slysi sem þarna virðist hafa átt sér stað.