Ávinningur sjávarútvegs af GATT-samkomulagi

36. fundur
Mánudaginn 15. nóvember 1993, kl. 16:01:46 (1324)


[16:01]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Beinn ávinningur sjávarútvegs yrði í formi lægri tolla og afnáms viðskiptahindrana, óbeinn ávinningur yrði fyrst og fremst í vexti heimsviðskipta, bættu viðskiptaumhverfi, greiðari markaðsaðgangi og hlutdeild í aukningu heimsviðskipta sem er metin allt að 200 milljarðar Bandaríkjadala á ári hverju fram til aldamóta vegna þeirra breytinga sem Úrúgvæ-lotan felur í sér.
    Fyrst tollalækkanir og afnám annarra viðskiptahindrana:
    Með EFTA-samningnum, EES-samningnum og fríverslunarsamningum við Austur-Evrópuríkin mun Ísland hafa greiðan aðgang að mörkuðum Evrópu með sjávarafurðir. Hvaða tollalækkanir og afnám annarra viðskiptahindrana á sjávarafurðir nást í Úrúgvæ-viðræðunum GATT á öðrum mörkuðum Íslands með sjávarafurðir, eins og t.d. í Bandaríkunum, Japan og Kóreu, er ekki enn fullljóst. Árangur mun nást í að fækka viðskiptahindrunum í þessum ríkjum en hversu mikill nákvæmlega hann verður kemur ekki í ljós fyrr en á næstu vikum. Það stafar af því að samningaviðræður um markaðsaðgang eru í formi fjölda tvíhliða viðræðna þar sem kröfur og tilboð þeirra ríkja sem í hlut eiga hverju sinni eru ræddar. Þeim viðræðum er ekki lokið.
    Öll aðildarríki samningaviðræðnanna þurfa að leggja fram tilboð um tollalækkanir og afnám annarra viðskiptahindrana fyrir lok samningaviðræðnanna 15. des. nk. Þegar þau tilboð liggja fyrir er fyrst hægt að meta endanlegan árangur hvað varðar markaðsaðgang í einstökum ríkjum. Þegar á árinu 1990 náðist samkomulag meðal aðildarríkja í Úrúgvæ-viðræðunum um að eitt helsta markmið viðræðnanna skyldi vera þriðjungslækkun tolla að meðaltali. Á fundi sjöveldanna í Tókíó í júlí sl. náðist samkomulag meðal þeirra ríkja að bæta um betur og lækka vissar þargreindar vörur niður í 0% toll, vörur með hærri tolla en 15% um 50% og á öðrum vörum skyldi tollurinn lækka um að meðaltali um þriðjung. Sjöveldin hafa skorað á önnur GATT-ríki að tilboð þeirra endurspegli samkomulag sjöveldanna. Eftir að samkomulag sjöveldanna lá fyrir lagði Ísland ásamt Noregi, Kanada og fleiri ríkjum fram tillögur um þriðjungslækkun tolls á fisk, hámarkstoll á fisk og afnám kvóta. Mjög óvíst er að þessi tillaga nái fram að ganga vegna þeirrar þvergirðingslegu afstöðu Evrópubandalagsins í Úrúgvæ-viðræðunum að fyrir aðgang að mörkuðum EB með fisk verði að ræða gagnkröfu samkvæmt auðlindastefnu þess um aðgang að fiskveiðilögsögu ríkja.
    Utanrrn. hefur í samráð við sjútvrn. gert kröfu um tollalækkanir á fiski gagnvart Bandaríkjunum, Japan og Suður-Kóreu. Fulltrúar Íslands hafa átt aðild að fjölda tvíhliða viðræðna í Genf með fulltrúum þessara ríkja þar sem kröfur Íslands um tollalækkanir á fisk og fleira hafa verið ræddar. Þær viðræður lofa góðu um tollalækkanir á fiski í þessum ríkjum og þá sérstaklega í Japan og Kóreu. Japan hefur boðið 30% tollalækkun á ýmsar fisktegundir sem Ísland hefur gert kröfu um og Suður-Kórea hefur boðið 50% tollalækkun á flestum kröfum Íslands. Samkvæmt 1. gr. GATT-samningsins njóta öll aðildarríki GATT þess árangurs sem einstök aðilarríki semja um í Úrúgvæ-viðræðunum, t.d. ef Japan býður tollalækkun á ákveðinni fisktegund vegna kröfu Noregs njóta önnur aðildarríki þeirrar lækkunar. Þannig er t.d. farið um tollkvóta í núlltolli á saltfiski á Spáni sem náðist í svokölluðum Kennedy-viðræðum sem lauk 1967. Eins og áður segir verður því ekki að fullu ljóst fyrr en einstök tilboð liggja fyrir hversu mikið er boðið í formi tollalækkana og afnámi annarra viðskiptahindrana á fiskmörkuðum.
    Að því er varðar hin óbeinu áhrif á efnahagsástand heimsins og viðskiptaumhverfið og afleiðingar þess fyrir Ísland er það að segja að öllum ber saman um að farsælar lyktir Úrúgvæ-viðræðnanna geti orðið helsti hvatinn að því að leysa heimsbyggðina úr þeirri efnahagslægð sem hún er nú stödd í og hefur verið í sl. 3--4 ár. Bætt efnahagsástand í heiminum mun leiða til betra efnahagsumhverfis og bættra viðskiptakjara fyrir Ísland. GATT hefur gegnt lykilhlutverki í vexti heimsviðskipta og niðurstaða sérfræðinga er sú að árlegar tekjur í heiminum muni áður en áratugurinn er liðinn aukast um að minnsta kosti 200 milljarða Bandaríkjadala á ári vegna Úrúgvæ-viðræðnanna. Þessu er stefnt í voða bíði Úrúgvæ-viðræðurnar skipbrot.
    Núverandi efnahagsástand í heiminum er einmitt frjór jarðvegur fyrir verndarstefnu og einhliða aðgerðir. Náist ekki niðurstaða í Úrúgvæ-viðræðunum mun það styrkja kröfur í þessa átt, leiða til enn verra efnahagsástands í heiminum og skjóta loku fyrir ýmsa viðskiptamöguleika fyrir þjóðir eins og Íslendinga sem fyrst og fremst eru háðir milliríkjaviðskiptum.