Ávinningur iðnaðarins af GATT-samkomulagi

36. fundur
Mánudaginn 15. nóvember 1993, kl. 16:11:44 (1327)

[16:11]
     Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) :
    Virðulegur forseti. Hinn svokallaða Úrúgvæ-lota GATT-viðræðnanna hefur staðið yfir í hartnær sex ár eða frá árinu 1986. Talið er að þessi lota sé langsamlegasta viðamesta tilraun sem gerð hefur verið til að liðka til fyrir milliríkjaverslun frá upphafi. Segja má að sú hugmyndafræði sem að baki viðræðnanna búi sé hugmyndafræði frjálsrar verslunar sem reynslan hefur sýnt að leitt hefur til hagsbóta fyrir þjóðirnar sem

hana hafa ástundað. Hið almenn samkomulag um tolla og viðskipti, GATT-samkomulagið, sem tók gildi í ársbyrjun 1948, var staðfesting þessarar hugsunar. Enginn vafi er á því að hin bitra reynsla þjóðanna sem fékkst í heimskreppunni hafi orðið að spori sem hræddi. Þá eins og tíðum er að kreppir óx skoðun sjálfsþurftarbúskapar fiskur um hrygg og átti mikinn þátt í að dýpka og framlengja þá kreppu sem yfir heimsbyggðina dundi á fjórða áratug þessarar aldar. Þrátt fyrir að alþjóðaviðskipti hafi vaxið stig af stigi síðustu hálfa öldina og ríflega það þá er ekki enn í gildi nægilega skýrar leikreglur um ýmsa vörflokka sem fyrirferðamiklir eru í framleiðslu ýmissa landa. Með Úrúgvæ-lotunni nú er verið að reyna að móta þessar leikreglur í anda frjálsra viðskipta á milli landa. Ekki er útséð með hvernig þessir samningar muni ganga. Þess vegna er fullkomlega óvíst hvort nokkuð verði af þessu mikilvæga samkomulagi sem almennt er talið að gæti hleypt nýju lífi í heimsviðskiptin og bætt lífskjör í heiminum, einkanlega hinum fátækari löndum, um stjarnfræðilegar upphæðir.
    Nú á lokastigum málsins hefur efnisumfang viðræðnanna einkum einskorðast við eftirfarandi atriði:
    1. Markaðsaðgang,
    2. vefnaðarvörur,
    3. landbúnaðarmál,
    4. viðskiptareglur,
    5. hugverk í viðskiptum,
    6. þjónustuviðskipti,
    7. stofnanamál.
    Af þessu má ráða að viðræðurnar eru miklar og víðfeðmar og taka til fjölmargra þátta viðskipta- og atvinnulífs.
    Hér á landi hafa umræður um GATT-viðræðurnar verið fremur litlar og á köflum yfirborðskenndar. Þess vegna hefur sjónum nær ekkert verið beint að ýmsum veigamiklum þáttum og hliðum hugsanlegs GATT-samkomulags sem gætu haft mikla þýðingu fyrir ýmsa þætti atvinnulífs okkar. Í því sambandi má sérstaklega nefna iðnað. Iðnaðurinn er tvímælalaust einn af vaxtarbroddunum í íslensku atvinnulífi. Og þótt starfsumhverfið hafi því miður oft verið þessari útflutningsgrein eins og öðrum bókstaflega fjandsamlegt þá er það samt svo að víða sjáum við merki um ótrúlega hugkvæmni, útsjónarsemi og dugnað hjá frumkvöðlum í íslenskum iðnaði. Nýjar iðngreinar hafa náð að hasla sér völl á nýjum mörkuðum og þannig dregið björg í hið íslenska þjóðarbú. Nægir þar að nefna íslenskan hugbúnað á sviði tölvumála og margs konar tækni á sviði sjávarútvegs og má nefna í því sambandi bæði fyrirtækin Marel og Póls hf. á Ísafirði. Aðrar greinar hafa mátt glíma við tröllauknar niðurgreiðslur og undirboð sem ekkert eiga skylt við eðlilegar leikreglur í heilbrigðum viðskiptum landa á milli. Kunnust eru dæmin um slíkt frá íslenskum skipasmíðaiðnaði og þarf ekki að orðlengja. Af þessum sökum hef ég leyft mér að leggja fyrir hæstv. utanrrh. svohljóðandi spurningu:
    Hver yrði helsti ávinningur íslensks iðnaðar af fyrirhuguðu GATT-samkomulagi?