Rannsókn á afleiðingum atvinnuleysis

36. fundur
Mánudaginn 15. nóvember 1993, kl. 16:37:24 (1337)

[16:37]
     Fyrirspyrjandi (Svavar Gestsson) :
    Virðulegi forseti. Á síðasta þingi flutti ég ásamt hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni till. til þál. um rannsókn afleiðingum atvinnuleysis. Þessi tillaga var ein af örfáum tillögum sem voru síðan afgreiddar á síðasta þingi af almennum þingmannamálum hér og niðurstaðan varð þál. um rannsókn á afleiðingum atvinnuleysis sem hljóðaði svo, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta kanna:
    a. hvaða stefnumörkun niðurstöður könnunar á högum atvinnulausra kalli á,
    b. hverjar séu takmarkanir bótakerfisins gagnvart þessum hópi og hvort og þá hvernig breyta skuli stuðningi hins opinbera við atvinnulausa, ekki hvað síst við þá sem búa við langvarandi atvinnuleysi,
    c. hvernig unnt sé að bæta aðgang atvinnulausra að menntakerfinu, ekki síst starfsmenntun og starfsþjálfun,
    d. hver sé þjóðfélagslegur kostnaður vegna atvinnuleysis.
    Í upphafi næsta þings verði lögð fram greinargerð um málið.``
    Ástæðan fyrir fsp. er þessi síðasta setning, að í upphafi næsta þings verði lögð fram greinargerð um málið og ég spyr hæstv. félmrh.: Hvenær kemur þessi greinargerð? Og er ekki ætlun ráðherra þegar greinargerðin kemur hér til meðferðar á Alþingi að þá verði hún tekin til sérstakrar umræðu? Ég geng alveg út frá því að greinargerðin komi.
    Frá því að þessi tillaga var samþykkt hafa menn reynt í framkvæmd talsvert miklar breytingar á atvinnuleysistryggingakerfinu. Það var opnað að nokkru leyti, m.a. fyrir sjálfstætt starfandi atvinnurekendum og ýmsum öðrum aðilum en áfram eru t.d. námsmenn útilokaðir. Þeir fá ekki greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði.
    Starfsmenn Atvinnuleysistryggingasjóðs hafa sagt mér að það sé mjög erfitt að framkvæma hin nýju lög og hina nýju reglugerð sem gefin var út um atvinnuleysistryggingar. Þess vegna er nauðsynlegt að fá það til umræðu hér í hverju þeir erfiðleikar eru fólgnir þannig að hægt sé að taka á þeim og breyta lögunum enn frekar vegna þess að sú breyting sem var gerð á lögunum um atvinnuleysistryggingar á síðasta þingi var ekki nægilega róttæk til þess að koma til móts við þann alvarleg veruleika sem blasir við að við erum hér með þúsundir manna á atvinnuleysisskrá á Íslandi í fyrsta sinn í sögunni. Þess vegna er þessi fsp., hæstv. forseti, borin fram til hæstv. félmrh.