Laun lækna á sjúkrahúsum

36. fundur
Mánudaginn 15. nóvember 1993, kl. 16:45:04 (1344)

[16:45]
     Heilbrigðisráðherra (Guðmundur Árni Stefánsson) :
    Virðulegi forseti. Spurt er í hve miklum mæli læknar eru á tvöföldum launum við vinnu sína á

sjúkrahúsum. Sérfræðingar og aðstoðarlæknar sem ráðnir eru á sjúkrahús eru ráðnir í ýmist fullt starf eða hlutastarf til þeirra verka á sjúkrahúsinu sem talið er nauðsynlegt að þeir vinni og er ráðuneytinu ekki kunnugt um að læknar séu á tvöföldum launum við vinnu sína á þessum sjúkrahúsum. Læknar eru ráðnir í dagvinnu, ýmist í fullt starf eða hlutastarf eftir því hve mikil verkefni eru á sjúkrahúsinu og þar sem þeir starfa.
    Heilsugæslulæknar sem ráðnir eru í hlutastarf, venjulega 25% starf eða þriðjungs starf á sjúkrahúsum úti á landi, eru ráðnir þar til eftirlits og launin eru þá ákveðin í samræmi við það og venjulega fá þeir ekki greiðslur fyrir vaktir. Segja má að þeir séu ráðnir í tvöfalda dagvinnu þar sem þeir hafa laun sem heilsugæslulæknar, jafnframt því sem þeir hafa laun sem sjúkrahúslæknar meðan þeir sinna dagvinnuskyldu sinni á sjúkrahúsinu.
    Læknar á stórum sjúkrahúsum fá greiðslur fyrir vaktþjónustu og yfirvinnu ef þeir eru kallaðir til vinnu utan dagvinnutíma eða ef þeir þurfa að vinna lengri vinnu í framhaldi af dagvinnutíma.
    Í öðru lagi er spurt: Hyggst ráðherra breyta reglum um tvöfaldar launagreiðslur (ferliverkefni)?
    Læknar eiga ekki að fá tvöfaldar launagreiðslur vegna starfa á sjúkrahúsum, svo sem fram kemur hér að framan, nema um heilsugæslulækna sé að ræða. Reglugerð um ferliverk var m.a. sett til að auðvelda sjúkrahúsum að gera samninga við lækna um aðgerðir á sjúklingum sem ekki eru lagðir inn á sjúkrahús, samningar um hvernig launagreiðslur skiptast milli lækna og sjúkrahúsa sem vinna ferliverk á sjúkrahúsunum. Að sjálfsögðu geta læknar unnið þessi verk á eigin stofu og kostað þá aðstöðu og búnað. Á hinn bóginn er rétt sem kemur fram í fsp. og inngangi fyrirspyrjanda, að ýmiss háttur er á þessu hafður, m.a. sá er fyrirspyrjandi gerði að umtalsefni, að í vissum tilfellum hafa einstakir læknar gert samninga við viðkomandi sjúkrahús, greitt aðstöðugjöld fyrir, en tekið greiðslur inn með beinum hætti, stundum þó í gegnum bókhaldskerfi sjúkrahúsa.
    Ég er þeirrar skoðunar að á þessum málum þurfi að taka og koma þeim í skilvirkari og skýrari mynd. Í því samhengi og til þess að koma á betri skikk þessara mála hef ég beðið Ríkisendurskoðun að taka saman og kanna hvaðan launagreiðslur lækna koma, hve háar þær greiðslur eru til lækna í heilsugæslu og á sjúkrahúsum. Ég vænti þess að á allra næstu vikum fái ég þessa heildstæðu skýrslu í hendur og gefist þá til þess tækifæri að koma á skýrara og skilvirkara fyrirkomulagi um störf lækna utan og innan stofnunar.
    Niðurstaða Ríkisendurskoðunar verður eðli máls samkvæmt gerð opinber og ég vænti þess að í kjölfar hennar geti ég átt gott samstarf við heilbr.- og trn. og aðra þá fjölmörgu hagsmunaaðila sem nærri koma, um að gera ákveðna nauðsynlega uppstokkun í þessum efnum.