Ferðakostnaður vegna tannréttinga

36. fundur
Mánudaginn 15. nóvember 1993, kl. 17:05:52 (1354)

[17:05]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :

    Virðulegi forseti. Hér höfum við orðið vitni að því að það er verið að spyrja um reglur, bæði um tannréttingar og ferðakostnað. Eins og við hér á hinu háa Alþingi vitum er margbúið að breyta þessum lögum núna á síðustu tveimur árum. Enn þá er samt verið að fara eftir reglugerð sem var sett í febrúar 1991. Ég spyr hæstv. heilbrrh.: Hvernig í ósköpunum á fólk sem þarf að sækja til Tryggingastofnunar eftir þeim lögum sem búið er að setja á Alþingi að geta sótt rétt sinn þegar verið er að vinna eftir einhverjum eldgömlum reglugerðum sem gilda ekki lengur samkvæmt þeim lögum sem eru í gildi?