Ferðakostnaður vegna tannréttinga

36. fundur
Mánudaginn 15. nóvember 1993, kl. 17:06:56 (1355)

[17:06]
     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Hér er hreyft máli sem bar á góma ekki fyrir löngu á Alþingi. Hinn 19. mars 1992 beindi Þuríður Backman fsp. til heilbrrh. um greiðslu ferðakostnaðar vegna tannréttinga. Svarið liggur fyrir á þingskjali.
    Eins og ég skil stöðuna nú er þetta bundið við mjög strangt mat, greiðsla 50% ferðakostnaðar, og í því felst gífurleg mismunun fyrir fólk sem ekki á greiðan aðgang að þessari þjónustu. Jafnvel þó að sums staðar hafi verið upp tekið að þeir sem tannréttingar annast fari út á land, t.d. til Egilsstaða á Austurlandi, þá bætir það ekki nema að takmörkuðu leyti stöðu fólks sem býr langt frá þessari annars ágætu samgöngumiðstöð í fjórðungnum. Á þessu verður að ráða bót. Þetta er algerlega óviðunandi (Forseti hringir.) og við verðum að fara rækilega ofan í saumana á þessu. Ég þakka fyrirspyrjanda fyrir að hreyfa þessu máli með fsp. Hér þarf að breyta lögum ef reglugerðir verða ekki viðunandi sem út koma.