Ferðakostnaður vegna tannréttinga

36. fundur
Mánudaginn 15. nóvember 1993, kl. 17:10:29 (1357)

[17:10]
     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Þessi mál bar aðeins á góma fyrr hér á þessum vetri í umræðu um frv. heilbrrh. um almannatryggingar. Þá kom fram í máli ráðherrans að hann lýsti því yfir að hann mundi beita sér fyrir því að reglum um ferðakostnað yrði breytt til þeirrar áttar að meira réttlætis og jafnaðar yrði gætt. Ég tók þátt í þeirri umræðu og gekk einmitt eftir þessu sjónarmiði ráðherrans sem hann lýsti þá og ég fagnaði nokkuð að fram kæmi. Ég spyr því hæstv. ráðherra í framhaldi af því og þessari fsp.: Hvað líður fyrirhuguðum breytingum ráðherrans á þessum þætti tryggingamálanna?