Friðunaraðgerðir á Breiðafirði

36. fundur
Mánudaginn 15. nóvember 1993, kl. 17:22:37 (1363)

[17:22]
     Fyrirspyrjandi (Sturla Böðvarsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. sjútvrh. það svar sem hann gaf við fsp. minni. En ég verð því miður að segja að svar Hafrannsóknastofnunar veldur miklum vonbrigðum. Að stofnunin skuli svara því að það sé hugsanlegt að þessar friðunaraðgerðir á innanverðum Breiðafirði hafi skilað einhverjum árangri en þeir hafi ekki komist í raun að nokkurri niðurstöðu.
    Þetta svar vekur vafalaust upp spurningar hjá fiskimönnum hvort ástæða sé til þess að þeir leggi til og leggi svo ríka áherslu á að friða svæði sem fiskifræðingar telja e.t.v. enga ástæðu til þess að friða. Það er ástæða til þess að vekja athygli á því að þetta sneri fyrst og fremst að þeim byggðum sem eiga auðveldast með að gera út á veiðar þarna í firðinum. Ég er viss um það að bæði útvegsmenn og sjómenn munu skoða þetta svar mjög rækilega og velta fyrir sér hvernig beri að taka niðurstöðu stofnunarinnar.
    Ég lagði þessa fsp. fram hér á þingi til þess að draga fram einhverja klára niðurstöðu, einhverja meiri vissu en við þingmenn kjördæmisins höfum haft um þessar friðunaraðgerðir vegna þess að þær hafa vissulega komið til umræðu og einnig friðunaraðgerðir á öðrum svæðum í Breiðafirði og út af Breiðafirðinum.
    En ég vil, virðulegi forseti, ljúka máli mínu með því að endurtaka að það veldur mér miklum vonbrigðum að Hafrannsóknastofnun hafi ekki sinnt betur skyldum sínum við að rannsaka fiskstofnana hér við landið en svo að þeir svari því að hugsanlega kunni 20 ára friðunaraðgerðir að hafa borið árangur.