Rannsóknir á áhrifum einstakra veiðarfæra

36. fundur
Mánudaginn 15. nóvember 1993, kl. 17:32:34 (1367)

[17:32]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Herra forseti. Í svari Hafrannsóknastofnunar við fyrri lið fsp. segir svo:
    ,,Margar fisktegundir, svo sem þorskfiskar, hrygna upp í sjó nokkuð frá botni. Veiðarfæri hafa því engin áhrif á hrygningu og klak þessara tegunda að öðru leyti en því að hægt er að veiða fisk sem er að hrygna eða er í hrygningarhugleiðingum. Það hefur oft verið gert, svo sem í flotvörpu á árunum 1952--1958 og í nót á árunum 1964--1968. Þess utan veiðist alltaf eitthvað af hrygnandi fiski í net.
    Ýmsar aðrar tegundir festa hrognin við botn, einkum þar sem botn er harður og grófur. Meðal slíkra tegunda má nefna síld og loðnu. Botnvarpa getur helst valdið skaða á slíkri hrygningu. Sá skaði virðist þó alls ekki vera mikill þegar haft er í huga að hrygning þessara tegunda hefur tekist betur á undanförnum árum en flestra annarra fisktegunda við Ísland. Áhrif veiðarfæra á hrygningarsvæði eru því sáralítil. Á hinn bóginn eru áhrif veiðarfæra á fiskstofna töluverð. Má þar nefna að töluvert af fiskungviði veiðist í smáriðin veiðarfæri, svo sem rækju- og humarvörpu. Hafrannsóknastofnunin og veiðieftirlit Fiskistofu fylgjast með slíkum veiðum og ef veiði smáfisks fer fram úr ákveðnum mörkum er veiðisvæðinu lokað. Gripið er til lokana áður en skaðinn vegna smáfiskadráps er orðinn jafnmikill og afrakstur veiðanna sjálfra.
    Þá er það að nefna að veiðarfæri geta valdið skaða á þeim hluta fiskstofna sem ekki veiðist en kemst í snertingu við veiðarfærin. Þannig er talið að eitthvað af ýsu geti drepist við það að smjúga út um möskva varpna, dragnóta og lagneta. Þessi fiskdauði er oft talinn vera 2--5%. Þá telja sumir að fiskar sem sleppa af línukrókum geti særst og drepist en engar rannsóknir hafa fari fram á því atriði.
    Mikið er einnig rætt um umhverfisspjöll veiðarfæra. Vitað er að botnvarpa rótar botninum mikið upp, en ekki hefur verið sannað að það hafi neikvæð áhrif. Þar sýnist þó sitt hverjum. Einnig er vitað að skelplógar brjóta mikið af skel sem ekki veiðist. Loks ber að nefna að dragnótatóg og plógar geta losað þara frá botni, en þaraskógar eru stundum griðastaður smáfisks. Þar lifa ígulker á þara.
    Mestu áhrif veiðarfæra á fiskstofna eru hins vegar veiðarnar sjálfar. Því miður hefur þróunin orðið sú að margar gerðir veiðarfæra taka mun meira af smáfiski en heppilegt er til þess að nýting stofnanna verði eins góð og æskilegt væri. Aukinn fjöldi skyndilokana er dæmi um þessa þróun og einnig hefur verið gripið til þess ráðs að loka stórum svæðum með reglugerðum. Þá hafa rannsóknir farið fram á gerð veiðarfæra í því skyni að draga úr seiða- og smáfiskadrápi. Slík veiðarfæri eru t.d. í notkun bæði við rækju- og humarveiðar.``
    Að því er varðar 2. lið fsp. er það að segja að engar upplýsingar liggja fyrir að því er varðar þá spurningu og Hafrannsóknastofnun telur að hún sé utan við sitt verksvið.