Rannsóknir á áhrifum einstakra veiðarfæra

36. fundur
Mánudaginn 15. nóvember 1993, kl. 17:35:58 (1368)

[17:35]
     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Mér þótti nú sem svarandi, í þessu tilviki Hafrannsóknastofnun, vildi misskilja fyrri lið fsp. í svari sínu en ég tel að þessar spurningar sem hér eru fram bornar séu þess eðlis að það sé mikil nauðsyn á því að fara ofan í saumana á hvoru tveggja. Hér segir í svari frá Hafrannsóknastofnun ef ég hef tekið rétt eftir að mestu áhrif séu veiðarnar sjálfar. Það þykja kannski ekki miklar upplýsingar en ég er þó þeirrar skoðunar að breytingarnar á uppeldisskilyrðum á hafsbotninum, breytingar á hafsbotninum sjálfum með botnvörpuveiðum, með snurvoð og fleiri veiðarfæri geti hugsanlega --- og ég segi geti hugsanlega til þess að segja ekki meira en ég get staðið við --- haft veruleg neikvæð áhrif á uppvöxt og viðgang fiskstofna og á þessu verðum við að taka. Núllið í svari við 2. lið kallar náttúrlega á talsverð viðbrögð.