Rannsóknir á áhrifum einstakra veiðarfæra

36. fundur
Mánudaginn 15. nóvember 1993, kl. 17:38:52 (1370)

[17:38]
     Fyrirspyrjandi (Sturla Böðvarsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. sjútvrh. fyrir þau svör sem hér komu fram, en vissulega vekja þau athygli að því leyti að það virðist vera sem svo að Hafrannsóknastofnun hafi ekki skoðað mjög mikið, svo að ekki sé dýpra í árinni tekið, þessi atriði, áhrif einstakra veiðarfæra á lífríki sjávarins. Það út af fyrir sig er þá mikilvægt og í rauninni nauðsynlegt að það komi fram að þessi mikilvæga stofnun hafi ekki haft tök á því að kanna það svo sem lög gera þó ráð fyrir að hún geri.
    Hér á Alþingi hlýtur það að þurfa að skoðast alveg sérstaklega og ég vil hvetja hæstv. sjútvrh. til þess að fara ofan í það með stofnuninni hvort ekki sé ástæða til að leggja meiri og ríkari áherslu á slíkar rannsóknir. Ég vil ekki áfellast stofnunina fyrir það að hafa ekki glöggar niðurstöður um þetta því að það er afar flókið mál að rannsaka áhrif veiðarfæra á lífríki sjávar, en það ætti hins vegar ekki að vera mjög flókið mál í samvinnu við útgerðaraðila að kanna það hverjir eru í raun hagkvæmustu útgerðarkostirnir. Ég held að það sé afar mikilvægt því það er verið að setja ýmsar takmarkanir á veiðar að það liggi betur fyrir í opinberum gögnum hvaða útgerðarhættir eru hagkvæmastir fyrir þjóðina skulum við segja, ekki einungis útgerðaraðilana. Ég vil þakka hæstv. sjútvrh. fyrir þetta svar og það vekur upp margar spurningar hjá mér, virðulegi forseti.