Rannsóknir á áhrifum einstakra veiðarfæra

36. fundur
Mánudaginn 15. nóvember 1993, kl. 17:43:57 (1372)

[17:43]
     Ingibjörg Pálmadóttir :
    Virðulegi forseti. Það er alveg rétt sem fram kemur hjá hæstv. ráðherra að það fara fram ítarlegar rannsóknir á vegum Hafrannsóknastofnunar en þær stangast kannski á við reynsluna stundum. Ef ég tek Faxaflóasvæðið sem dæmi þá voru bannaðar dragnótaveiðar um 10--12 ára skeið í Faxaflóa og á þeim tíma var mokveiði bæði af þorski og sérstaklega ýsu. Síðan hafa þessar dragnótaveiðar hafist aftur og verið leyfðar um 10 ára skeið og ýsan er nánast dauð á þessu svæði. Það veiðist engin ýsa og takmarkað af þorski. Reynslan sýnir að þetta hefur einhver áhrif en samt sem áður veit ég að það fara ítarlegar rannsóknir fram á vegum Hafrannsóknastofnunar og þær skoðanir ber allar að sama brunni, að þetta eyðileggi ekki lífríki þannig að þarna stangast á vísindin og reynslan.