Flutningur útibús Hafrannsóknastofnunar frá Ólafsvík

36. fundur
Mánudaginn 15. nóvember 1993, kl. 17:57:54 (1378)

[17:57]
     Hjörleifur Guttormsson (um fundarstjórn) :
    Virðulegur forseti. Ég brást nú þannig við áðan þegar ég ætlaði að fara að gera athugasemd að nota orðalag sem okkur var tamt og hefur verið tamt um áratugi þegar við teljum þörf á að gera athugasemd varðandi það sem fram fer á fundi, stjórn fundar, að kalla það umræðu um þingsköp. Þessu mun hafa verið breytt núna í byrjun þings með breytingum á þingskapalögum og er nú kallað um fundarstjórn forseta. Ég vænti að hæstv. sjútvrh. doki við á meðan ég ber fram smá athugasemd sem tengist meira hans þátttöku í umræðu áðan en stjórn forseta en það kom mér á óvart að forseti meinaði mér máls til þess að bera fram þessa athugasemd. Það sem hér gerðist í umræðu var það að eftir að ég hafði borið fram í fyrirspurnatíma athugasemd svo sem þingsköp leyfa fyrir þingmann að koma einu sinni í ræðustól til að koma að stuttri athugasemd, þá kemur ráðherrann að því búnu í ræðustól og fer að leggja merkingar í orð og snúa við því sem ég hafði mælt án þess að mér gæfist kostur á að bregðast við því nema með frammíkalli, sem ég reyndar kom á framfæri, vegna þess að mér ofbauð. Ég ætla ekki að fara að ræða það efnislega, virðulegur forseti, það er ekki málið, en ég varð satt að segja mjög undrandi á hæstv. sjútvrh. að fara að nota tíma sinn með þeim hætti sem hann gerði þegar þingmaður hefur ekki kost á því heldur að koma við andsvari við hans mál undir fyrirspurninni.
    Ég tel mjög miður að svona sé gert í þessu formi þegar þingmaður hefur aðeins þann kost, almennur þingmaður sem ekki ber fram fsp., að koma með stutta athugasemd í eina mínútu og að þá skuli það vera nýtt með þeim hætti sem hér kom fram og þingmenn geta kynnt sér þegar þeir fara yfir umræður.