Vegalög

37. fundur
Þriðjudaginn 16. nóvember 1993, kl. 13:52:54 (1381)

[13:52]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Svo var hv. þm. aðþrengdur eftir sinn málatilbúnað allan að hann leitaði ásjár hjá þingmanni Sjálfstfl. á Suðurl. og var kannski ekki að furða eins og málstaðurinn er.
    Sannleikurinn í þessu máli er sá að stofnstyrkir til flóabáta samkvæmt fjárlögum á árinu 1991 eru 1 millj. til Mjóafjarðarbáts, en 6 millj. til Eyjafjarðarferju. Á því ári varð að taka inn aukafjárveitingu þannig að heildarstofnkostnaður á þessu ári varð 71,9 millj. kr. vegna ákvarðana sem höfðu verið teknar á meðan hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon var samgrh.
    Stofnstyrkir til flóabáta voru eins og ég hef áður rakið hér 1987 2,4 millj. kr., 1988 1,1 millj. kr., 1989 2,1 millj. kr., 1990 8,4 millj. kr. og samkvæmt tillögum síðustu ríkisstjórnar 7 millj. kr. á árinu 1991, en þar varð að biðja um verulega aukafjárveitingu. Stofnstyrkir á sl. ári voru 119,5 millj. kr. Ég er ekki með töluna hér en á næsta ári má gera ráð fyrir því að styrkir og rekstrarframlög til ferja verði 560 millj. kr. Heildarskuldir, heildarlánveitingar vegna ferjukaupa voru í árslok 1992 2,4 milljarðar kr., höfðu verið á árinu 1980 285 millj. kr. Þannig að það var heldur betur búið að bæta við. Þó svo mönnum hafi tekist að skrifa undir ferjusamningana þann síðasta þrem dögum fyrir kosningar þá kom það ekki í hlut síðustu ríkisstjórnar né síðasta samgrh. að sjá til þess að þessar skuldir séu greiddar.