Vegalög

37. fundur
Þriðjudaginn 16. nóvember 1993, kl. 13:55:10 (1382)

[13:55]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það liggur auðvitað fyrir og er þegar margreynt að það er ekki hægt að ræða málefnalega við núv. hæstv. samgrh. um þessi mál. Hann fer alltaf í sama farið, þylur hér upp tölur og gerir allt saman mjög tortryggilegt en forðast að svara því sem spurt er um eða ræða efnislega um málið.
    Hæstv. samgrh. ætti að vita, af því að hann er þingvanur maður, að fjármögnun á byggingartíma Herjólfs var með nákvæmlega sama hætti og áður hafði tíðkast í tíð margra fyrri ríkisstjórna þegar endurnýjuð voru skip eða byggð, og næsta dæmi og nærtækast þar við er frá byggingartíma Baldurs, sem tekin var ákvörðun um af ríkisstjórn Sjálfstfl. og Framsfl. og þáv. hæstv. samgrh., Matthías Bjarnason, mun væntanlega hafa skrifað undir smíðasamning þar um. Fjármögnunin á byggingartíma var með sama hætti. Það voru veittar heimildir til lántöku vegna smíðanna á lánsfjárlögum viðkomandi ára og síðan var þeim byggingarlánum breytt eftir að skipin höfðu verið byggð og voru komin í rekstur.
    Þessi háttur hefur yfirleitt verið hafður á þegar um sambærilegar ráðstafanir hefur verið að ræða af hálfu ríkisins. Þegar fyrri ríkisstjórn, þ.e. ríkisstjórn Sjálfstfl. undir forustu Þorsteins Pálssonar, þóttist vera að undirbúa endurnýjun á Herjólfi þá setti hún á lánsfjárlög einmitt lánsheimild til að hefja annaðhvort smíði á eða kaupa notað skip. Síðan var reiknað með að þeirri lánsheimild yrði breytt yfir í lagtímalán og svo kæmu til stofnframlög eða fjárveitingar í kjölfarið á því að skipið hefði verið byggt. Þannig að hér átti að standa að og málið var undirbúið með nákvæmlega sama hætti og gert hafði verið.
    Það var síðan athyglisvert að hæstv. samgrh. reyndi ekki að standa við stóru orðin um að það hefði verið vænlegra og ódýrara að byggja 12--13 milljarða kr. neðansjávarjarðgöng og reka þau fyrir 120 millj. kr. á ári heldur en að endurnýja Herjólf. Ég lít svo á að hæstv. samgrh. sé búinn að viðurkenna mistök sín í því efni.