Hafnalög

37. fundur
Þriðjudaginn 16. nóvember 1993, kl. 14:02:09 (1386)

[14:01]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Það frv. sem hér liggur fyrir fjallar um nýja skipan hafnamála. Það var lagt fram á síðasta þingi og hlaut þá afgreiðslu í nefnd.
    Ég veit ekki hvort maður á að hætta sér út í að ræða almennt um fjárveitingar til samgöngumála eftir það sem á undan er gengið og yrði þá ugglaust talið að ég væri að misnota aðstöðu mína til að tala um mál sem heyrðu undir síðasta dagskrárlið, ferjumálin. En auðvitað er það svo í samgöngumálum í heild að ef nauðsynlegt er að leggja óeðlilega mikið til eins þáttar þá bitnar það á öðrum og svo er um ýmislegt í sambandi við hafnamálin að hinir miklu peningar og fjármunir sem fara til ferjumálanna nú hafa sett svip sinn á hafnarframkvæmdir á síðustu árum og valdið því að ýmislegt hefur dregist.
    Frv. sem hér liggur fyrir er lagt fram með þeim breytingum sem meiri hluti samgn. lagði til á síðasta þingi og á bls. 17 eru brtt. prentaðar þannig að fljótlegt á að vera að bera saman eða gera sér grein fyrir þeim breytingum sem gerðar hafa verið á frv.
    Aðalbreytingarnar í því frá gildandi hafnalögum eru í fyrsta að í 8. gr. frv. er gert ráð fyrir að eigendur hafna geti auk sveitarfélaga einnig verið hlutafélög. Jafnframt er gert ráð fyrir að hafnir geti verið hluthafar í fyrirtækjum sem tengjast starfsemi þeirra. T.d. geti hafnir samkvæmt þessu ákvæði orðið hluthafar í fiskmörkuðum. Þessi breyting er lögð til vegna þess að menn vilja greiða fyrir því að hafnirnar geti komið inn í aðra þætti en snúa að þeim sjálfum í þrengsta skilningi til þess að auka hagkvæmni við flutninga og eins til þess að styrkja þau umsvif sem um hafnirnar fara.
    Í öðru lagi er lagt til í 8. gr. að mynduð verði hafnasamlög um rekstur hafna þar sem landfræðleg skilyrði séu fyrir hendi. Í fskj. með frv. eru hugmyndir þeirrar nefndar sem samdi frv. sýndar um það hvernig mætti hugsa sér stofnun þessara hafnasamlaga og hvernig þau hvert fyrir sig mundu koma út fjárhagslega.
    Með stofnun hafnasamlaga er stefnt að hagræðingu í nýtingu hafna og framkvæmdum enda gert ráð fyrir að milli þeirra sé almennt gott vegasamband árið um kring. Þannig er ekki gert ráð fyrir að hafnasamlög á Vestfjörðum verði raunhæf fyrr en lokið er gerð jarðganga milli Ísafjarðar, Suðureyrar og Flateyrar. Nefndin telur eðlilegt að ríkisvaldið stuðli að sínu leyti að því að hafnasamlög verði mynduð m.a. með gerð sérstakra framkvæmdaáætlana fyrir hvert einstakt hafnasamlag og betri fyrirgreiðslu varðandi ríkisframlög til framkvæmda en einstakar hafnir innan samlaganna gætu annars vænst.
    Um þetta er annars það að segja að stofnað hefur verið hafnasamlag við utanverðan Eyjafjörð, milli Ólafsfjarðar, Dalvíkur og Árskógsstrandar. Það er í deiglunni að stofna hafnasamlag milli hafnanna á Patrekstfirði, Bíldudal og Tálknafirði eftir að vegurinn yfir Hálfdán var lagaður. Jafnframt eru umræður um hafnasamlag á Vestfjörðum hinum nyrðri. Víðar hefur verið rætt um hafnasamlög en auðvitað hefur sú atkvæðagreiðsla sem nú er fram undan um sameiningu sveitarfélaga áhrif á þessar umræður.
    Ákvæði um kostnaðarþátttöku ríkissjóðs er nú breytt á þann hátt að ýmis ytri mannvirki hljóta 90% ríkisframlag. Ber þar aðallega að nefna hafnargarða (öldubrjóta) og dýpkanir hafna og innsiglinga auk siglingamerkja og sérbúnaðar fyrir ekjuskip og ferjur en þessar framkvæmdir njóta nú 75% ríkisframlags. Í þessum styrkflokki var áður aðeins dýpkun aðalsiglingaleiðar að höfn. Allar aðrar styrkhæfar hafnarframkvæmdir hljóta 60% ríkisstyrk en 40% styrkflokkurinn er felldur niður. Ég hygg að breyting hafi ekki verið um þetta hjá nefndinni. Jafnframt er fellt niður 40% ríkisframlag til hafnarvoga, hafnsögubáta og fastra krana til löndunar úr smábátum en ríkisframlag til upptökumannvirkja fyrir skip hækkar í 60% stofnkostnaðar.
    Í bráðabirgðaákvæði sem lagt var fram með brtt. og er tekið hér inn í frv., segir: ,,Þrátt fyrir ákvæði 24. og 26. gr. laga þessara skulu ákvæði laga nr. 69/1984, um allt að 40% ríkisframlag til stofnkostnaðar við hafnarvogir, hafnsögubáta og löndunarkrana, gilda til ársloka 1994``.
    Nefndin telur að þegar á heildina er litið taki ríkissjóður svipaðan þátt í hafnargerðum og verið hefur þrátt fyrir þessar breytingar.
    Í frumvarpinu eru ákvæði um 25% álag á vörugjald er renni í Hafnabótasjóð. Þetta er í samræmi við 29.--32. gr. laga nr. 1/1992. Sú breyting er gerð að álagið er látið renna til lán- og styrkveitinga úr sjóðnum en ekki sem framlag ríkisins til almennra hafnarframkvæmda eins og þau lög gerðu ráð fyrir. Miðað við núgildandi gjaldskrá má ætla að tekjur af sérstöku álagi á vörugjald nemi um 125 millj. kr. á ári og með hliðsjón af því er framlag ríkisins nú gert háð ákvörðun Alþingis hverju sinni.
    Eins og ég sagði fékk þetta frv. mjög rækilega meðhöndlun á síðasta þingi. Sú hafnaáætlun sem var lögð fram og var lögð til grundvallar við tillögur um fjárlög fyrir næsta ár gerir ráð fyrir að þær breytingar sem í frv. felast nái fram að ganga á þessu ári. Ég vænti þess eins og málið liggur fyrir og eins og að því var staðið á síðasta þingi að nefndin muni hraða störfum og greiða fyrir því að frv. nái fram að ganga nú á haustþinginu.
    Það eru ekki efnislegar ástæður til að draga málið vegna þess að allri undirbúningsvinnu og tillögugerð var lokið á sl. vori og menn voru undir það búnir að taka frv. til 2. umr. og afgreiðslu í maímánuði. Hitt þjónar auðvitað ekki tilgangi og mér dettur raunar ekki í hug að samgn. muni óska að standa þannig að málum að endurvinna verkið sem lauk eins og ég sagði á sl. vori því að við viljum auðvitað, bæði meiri hluti og minni hluti, reyna að hafa góð vinnubrögð og gott samstarf í nefndarstörfum og þess vegna veit ég að það verður orðið við þessari hógværu beiðni.
    Ég legg til að málinu verði vísað til 2. umr. og samgn.