Hafnalög

37. fundur
Þriðjudaginn 16. nóvember 1993, kl. 14:10:55 (1387)

[14:10]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hæstv. samgrh. var að mæla fyrir frv. til hafnalaga ég held í þriðja skipti síðan þessi ríkisstjórn tók við. Ég vildi spyrja hann í framhaldi af þessari framsöguræðu þar sem hann nefndi m.a. að þetta frv. gerði ráð fyrir því að hægt væri að stofna hafnasamlög.
    Í frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1993 segir í kaflanum um samgrn. að það sé óskað eftir 30 millj. kr. framlagi til að flýta hafnarframkvæmdum í Ólafsfirði, en nýlega hafði Ólafsfjörður, Dalvík og Árskógssandur myndað með sér hafnasamlag, samanber ákvæði í frv. til nýrra hafnalaga. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra: Geta menn átt von á því að fá 30 millj. kr. auka í hafnarframkvæmdir ef þeir búa til hafnasamlag eða jafnvel eitthvert pappírshafnasamlag? Ég vil einnig spyrja hvort þessar framkvæmdir í Ólafsfirði séu hafnar og hvort fleiri hafnasamlög hafi verið stofnuð.