Hafnalög

37. fundur
Þriðjudaginn 16. nóvember 1993, kl. 14:14:32 (1391)

[14:14]
     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Þetta er nú svo sem ekki nýtt efni sem er fyrir framan okkur að þessu sinni þó að það sé í ívið breyttu formi þannig að ég mun ekki fjalla um efni frv. að meginstofni til. Ég bendi þó á eitt atriði í því sem er athyglisvert, einkum og sér í lagi vegna þess að það stangast gersamlega á við stefnu ríkisstjórnarinnar í öðru máli. Þar á ég við stofnun hafnasamlaga. Ég vil taka það fram að ég er hlynntur þeirri leið sem frv. gerir ráð fyrir að farin verði um hafnasamlög þannig að ekki er ég í ágreiningi við ráðherra um það en það sem ég bendi á er að stefnan í frv. um hafnasamlög er í fullkominni andstöðu við stefnu ríkisstjórnarinnar í málinu ,,sameining sveitarfélaga``. Og það kemur mjög skýrt fram í athugasemdum á bls. 9 með þessu frv. hvernig á að útfæra þetta og einnig í athugasemdum fjármálaskrifstofu á bls. 16, þannig að það er ljóst af þessu frv. að ríkisstjórnin sjálf hefur enga trú á því eða a.m.k. verður að draga þá ályktun af þessu að ríkisstjórnin sjálf hafi enga trú á því að sú stefnumörkun sem hún hefur markað með sameiningu sveitarfélaga og eyðir milljónum króna í blaðaauglýsingar til að reka áróður fyrir nái fram að ganga.