Hafnalög

37. fundur
Þriðjudaginn 16. nóvember 1993, kl. 14:29:14 (1396)

[14:29]
     Ingibjörg Pálmadóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er eflaust alveg hárrétt sem kom fram hjá hæstv. samgrh. að hafnirnar mega ekki við að missa neinn spón úr aski sínum og loðnuhafnirnar mega ekki við því. En ég var að benda á það mikla misræmi sem væri milli þessara hafna þar sem er óþolandi. Og ég ætla líka að minna hæstv. ráðherra á að það er svo sérkennilegt að um 70% þessara hafna þar sem loðnu er landað eiga verksmiðjurnar sjálfar. SR á þessar hafnir að meira eða minna leyti þannig að þeir eru að borga í hafnarsjóð þrátt fyrir að verksmiðjurnar eigi hafnirnar. Það er því eitt atriði út af fyrir sig sem rétt er að skoða, en það er hárrétt hjá ráðherra að ef engin breyting verður á rekstri hafnanna þá mega þær ekki við að missa þennan spón

úr aski sínum. Það er spurning hvort það er hægt að ná meiri hagræðingu en er í dag. Það er það sem ég var að reyna að koma fram með í máli mínu.
    En því sem ráðherrann svaraði ekki var það hvort hann trúi því virkilega að þetta hlutafélagsform sem áætlað er í frv. gefi höfnunum meira og hvort hann trúi því virkilega að það komi inn aðilar og leggi fé til hafnanna. Það er mín spurning vegna þess að það er málefni sem er mjög spennandi að íhuga.