Hafnalög

37. fundur
Þriðjudaginn 16. nóvember 1993, kl. 14:31:14 (1397)

[14:31]
     Jóhann Ársælsson :
    Hæstv. forseti. Það mun vera í þriðja sinn sem núna er mælt fyrir þessu frv., nánast óbreyttu. Það er óbreytt reyndar. Að vísu fylgja brtt. sem viðauki með frv. eins og það er lagt fram núna en þær brtt. eru að langmestu leyti betrumbætur á orðalagi frv., ættaðar frá formanni nefndarinnar og flestar hinar ágætustu og til réttrar áttar. Það hafa engar breytingar verið gerðar á aðalatriðum frv., þ.e. þeirri stefnumörkun sem þar kemur fram. Og þrátt fyrir að það sé rétt sem hæstv. ráðherra sagði að rækilega hefði verið farið yfir frv. þá segir það ekkert um það að tekið hafi verið tillit til eða tekið mark á athugasemdum og og ábendingum hinna ýmsu aðila sem fjölluðu um frv. og gáfu því umsögn.
    Hæstv. ráðherra talaði um að hann tryði því að frv. fengi skjótan framgang í nefndinni vegna þess að það væri búið að vinna þessa vinnu alla. Út af fyrir sig getur það gerst. Ég býst ekki við því að minni hluti nefndarinnar muni reyna að berjast með kjafti og klóm til þess að koma í veg fyrir að frv. fari í gegn. En ég tel fulla ástæðu fyrir hv. alþm. að taka eftir því að þannig hefur verið staðið að framgangi þessa máls að það hefur ekki verið hlstað á mjög skynsamlegar ábendingar og samhljóma fyrirvara og ábendingar um lagfæringar frá hinum ýmsu aðilum sem gáfu umsagnir um þetta frv.
    Ég ætla ekki að fara efnislega yfir allt sem við töldum athugavert við frv. og lögðum til breytingar þar á heldur vil ég benda á fáein atriði sem hinir ýmsu aðilar gerðu athugasemdir við. Það má kannski segja að það sem oftast var nefnt og af flestum var gagnrýnt harðlega voru hugmyndirnar í frv. um að hafnir gætu orðið hlutafélög með þeim hætti sem gert er ráð fyrir í frv. Nú er út af fyrir sig ekkert athugavert við það að fyrirtæki séu hlutafélög. En það vill nú svo til að í þessu frv. er gert ráð fyrir því að hafnir geti verið hlutafélög, að hafnir geti tekið þátt í öðrum atvinnurekstri og að hafnir geti hlotið framlög frá ríkinu. Samt er í 14. gr. þessa frv. gert ráð fyrir að hafnarsjóðir skuli undanþegnir hvers konar sköttum til sveitarsjóða. Það hefur verið ítrekað bent á að það gangi ekki að hafa þetta með þessum hætti en það hefur ekkert verið á það hlustað.
    Samband ísl. sveitarfélaga gerði ýmsar athugasemdir og ég gríp hér niður í hluta af þeim. Það er t.d. lagst gegn því ákvæði sem er í 9. gr. að hafnarstjórn ráði hafnarstjóra. Þar segja menn að engin ástæða sé til að færa það ákvarðanavald úr hendi eigenda hafnanna sem bera alla ábyrgð á rekstri þeirra. Þar er einnig mótmælt lögbindingu sérstaks vörugjalds og það er eitt af því sem nánast allir aðilar sem fjölluðu um málið gerðu. Þeir mótmæltu lögbindingu þessa sérstaka vörugjalds. Það hefur ekkert verið á það hlustað, þetta vörugjald hefur verið lagt á núna síðustu tvö árin og gert er ráð fyrir því að festa það í sessi með þessum lögum.
    Hafnasamband sveitarfélaga vísaði umsögnunum til viðkomandi hafna og hinar ýmsu hafnir gerðu athugasemdir og ég ætla að grípa niður í einstaka liði í því, þó mjög fáa. Það væri vissulega ástæða til að fara rækilega yfir þetta mál en ég tel ekki rétt að gera það hér í þinginu, það verður auðvitað gert í nefndinni og það kemur síðan í ljós hvernig framhaldið verður. T.d. segir svo í lokaorðum umsagnar hafnarstjórnar Akureyrar, með leyfi forseta:
    ,,Eins og sést hér að framan þá telur hafnarstjórn Akureyrar ýmislegt mega betur fara í þessu frv. til hafnalaga sem nú liggur fyrir Alþingi. Við væntum þess að menn fari sér hægt í að samþykkja frv. og gefi sér góðan tíma til að ræða það og gefa hagsmunaaðilum kost á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri.``
    Það komu ýmis sjónarmið á framfæri eftir að þetta bréf var skrifað en það var nákvæmlega ekkert á þau sjónarmið hlustað. T.d. er í umsögn Reykjavíkurhafnar varað við hugmyndunum um hlutafélög eins og þau eru lögð fram í frv. og lagðar fram spurningar um það t.d. hvernig verði farið skattalega með ríkisstyrki til slíkra hafna. Það hafa ekki komið svör við því. Það er spurt: Hlutafélög hljóta að greiða skatta bæði til ríkis og sveitarfélaga. Hvernig fer þetta saman við undanþágur á greiðslu skatta til sveitarsjóða skv. 14. gr.? Hvernig samræmist ríkisstyrkur til hlutafélaganna, sem geta verið í eigu fyrirtækja og einstaklinga, lögum um samkeppni? Er t.d. hægt að setja takmarkandi ákvæði á hlutafélag eins og í 14. gr. að tekjum og eignum megi einungis verja í þágu hafnarinnar? Það er spurt: Getur ráðherra ákveðið gjaldskrá fyrir hlutafélag í eigu ríkis, sveitarfélaga eða annarra? Það er ein af spurningunum. Er það hægt? Getur ráðherra ákveðið þá gjaldskrá? Er það þá fast? Ég spyr hæstv. ráðherra: Telur hann að hann geti ákveðið gjaldskrá fyrir hlutafélag sem yrði um höfn? Almennt er spurning um hvort allt eftirlitskerfi Hafnamálastofnunar geti þá átt við um hlutafélög.
    Um hafnasamlög segir í umsögn Reykjavíkurhafnar að í frv. sé gerð sú tillaga til breytingar að í stað eigenda hafna skuli hafnarstjórn ráða hafnarstjóra og í athugasemdum stendur að um smávægilegar

orðalagsbreytingar sé að ræða. Óþarfi virðist að með lögum sé höfð sú forsjá með eigendum hafna að þeir ráði ekki hvernig þeir ráða hafnarstjóra. --- Þetta er sama athugasemd og frá Akureyrarhöfn. Hún kemur reyndar víðar fram í umsögnum annarra hafnarstjórna.
    Þannig úir og grúir af athugasemdum og það eru mótmæli gegn hinum ýmsu breytingum sem gerðar eru í frv. Í sambandi við þær breytingar, þó ég ætli ekki að fara yfir þær allar sem snúa að kosnaðarþátttöku hins opinbera í hinum einstöku verkefnum við hafnir, þá langar mig að spyrja hæstv. ráðherra að gefnu tilefni: Hvers vegna útskýrði hann ekki fyrir hv. þm. hvaða afstöðu hann hefur til breytingarinnar sem lögð er til á kostnaðarþátttöku í upptökumannvirkjum? Það er gert ráð fyrir því að kostnaður við upptökumannvirki breytist þannig að í staðinn fyrir 40% kostnaðarþátttöku ríkisins verði hún 60%.
    Ég hlustaði á hæstv. iðnrh. segja það fyrir nokkrum dögum á fundi hér út í bæ að hann teldi að þetta ætti að koma til endurskoðunar. Og ég man ekki betur en að hann hafi orðað það svo að það væri hans skoðun að hæstv. samgrh. væri sömu skoðunar og hann. Ekki gerði hæstv. ráðherra þó grein fyrir því hér í ræðustólnum áðan að hann hefði skipt um skoðun á því sem stendur í frv. Ég hef áhuga á að hann fræði hv. þm., mig og fleiri, um það hvort von sé á einhvers konar breyttri afstöðu til þessa ákvæðis í lagafrv.
    Ég veit ekki hvort það er ástæða til að fara ofan í mikið af þessum athugasemdum. Eins og ég sagði hér áðan munum við taka þær fyrir í samgn. og ræða þær upp á nýtt. Ég tel að það sé full ástæða til þess þrátt fyrir að það hafi verið gert áður vegna þess að ég tel að það hafi ekki verið staðið nægilega vel að þessu máli og það sé full ástæða til að yfirfara aftur sumt af því sem var hafnað síðast vegna þess að ég hef ævinlega verið bjartsýnismaður og trúi því að menn geti vitkast með tímanum og það sé hægt að ræða mál aftur þó því hafi verið hafnað hér á síðustu tveimur þingum að gera breytingar á þeim hugmyndum sem hér eru á ferðinni.
    Það segir í umsögn frá bæjarstjóranum og hafnarstjóranum á Akranesi:
    ,,Ákvæði um greiðsluþátttöku ríkissjóðs í framkvæmdum þurfa að vera skýrari og ekki háðar ákvæðum reglugerðar.`` Þar segir: ,,Eðlilegt verður að teljast að hafnarvogir og lóðsbátar teljist til styrkhæfra framkvæmda.`` Þessi athugasemd kemur víða fram í umsögnum annarra. Þar segir líka: ,,Ítrekuð eru fyrri mótmæli gegn upptöku sérstaks vörugjalds``, sem eins og ég sagði áðan kemur fram í hverri einustu umsögn og er til mikillar umhugsunar fyrir aðila.
    Ég vil þó taka það fram að ég get ekki tekið undir það að hægt sé að hafa það sem stefnu að draga úr framkvæmdum við hafnir að öðru leyti en því sem kemur af sjálfu sér. Framkvæmdir við hafnir eru mjög að dragast saman einfaldlega vegna þess að það hafa verið gífurlega miklar hafnarframkvæmdir á undanförnum árum. Víða eru hafnir komnar í mjög gott ástand. Það er þess vegna ekki ástæða til fjárfestinga í mörgum höfnum allt í kringum landið. En það eru þó til hafnir sem menn verða auðvitað að halda áfram að klára framkvæmdir í sem bæði standa yfir og hefur verið gert ráð fyrir að yrðu gerðar á næstu árum. Ég tek undir með hæstv. ráðherra sem lætur engan bilbug á sér finna í því að þeim framkvæmdum verði haldið áfram.
    Ég vil að lokum í þessari upptalningu benda á þau atriði sem hafnarstjórn Hafnarfjarðar benti á í sinni umsögn sem var mjög vel unnin og mjög vel sett fram og mikil vinna í hana lögð og nefndin las öll yfir en það var ekki orðið við þeim tilmælum og hugmyndum sem komu þar fram. En það eru kannski lýsandi dæmi um hvernig viðbrögð manna urðu við því að skoða þær breytingar sem voru þarna á ferðinni. Það voru ellefu tölusettir liðir sem þar komu fram. Í fyrsta liðnum voru gagnrýndar tillögur um að það væru tiltölulega fáar breytingartillögur settar fram í búningi gagngerra breytinga á gildandi lögum. Þar var því sem sagt haldið fram að skýrara hefði verið að gera breytingatillögur við einstakar greinar gildandi laga. Þetta var um meðferðina. Síðan var sett fram sú hugmynd að skipunartími þeirra manna sem sitja í hafnaráði samkvæmt tilnefningu hafnasambandsins ætti að vera eitt ár. Það voru fleiri sem tóku undir þessa tillögu. Það var í þriðja lagi sett spurningarmerki við það ákvæði að hafnir gætu orðið hlutafélög og spurt um það hvort ríkið mundi styrkja framkvæmdir slíkra hafna. Það er nákvæmlega það sem kemur fram í frv. að gert er ráð fyrir því að hægt sé að styrkja þær án þess að það sé síðan skilgreint nánar hvernig eigi að fara með þannig hafnir gagnvart sköttum og öðru slíku.
    Þar er andmælt þeirri hugmynd að þvinga megi fram myndun hafnasamlaga með því að mismuna höfnum við ákvörðun ríkisstyrks. Það komu einmitt fram hér áðan spurningar um það efni og er ástæða til að hæstv. ráðherra svari því betur hér á eftir hvort hann telji að eðlilega sé að þessu staðið að það eigi að mynda hafnasamlög með því að setja einhverjar þumalskrúfur á þá sem eiga þar hluta að máli. Ég tel að myndun hafnasamlaga sé hið besta mál. En það eigi auðvitað bara að gerast vegna þess að menn sjái hag sinn í því og það eigi ekki að þvinga menn með neinu móti eða bera á þá fé til þess að gera þá hluti. Það verði bara að vera bláköld niðurstaða af skoðunum á því hvort það sé hagstætt fyrir viðkomandi aðila.
    Það er auðvitað mótmælt þessu 25% sérstaka vörugjaldi. Í sjötta lagi er bent á samþykkt frv. sem skerðir lögveð í skipum. Það var að vísu komið til móts við þá athugasemd, eina af fáum. Í sjöunda lagi var andmælt lögfestingu þess óréttlætis að hafnir eigi að innheimta vigtargjöld af öllum afla án tillits til hvort hann hefur verið vigtaður hjá viðkomandi höfn eða hjá öðrum aðila. Í áttunda lagi var auglýst eftir rökstuðningi fyrir breytingu á kostnaðarþátttöku ríkisins og það er aldeilis eitthvað sem þyrfti nú að liggja

fyrir og hefði þurft að fylgja með þessu frv., betri útlistun á því hvernig menn hafa komist að þessum endanlega sannleika um það hvernig eigi að skipta þessu og að menn skyldu leggja í þann leiðangur að breyta þessu eins mikið og þarna er gert og í andstöðu við fjölmarga aðila sem hafa kannski beðið í röðinni eftir því að fá peninga í einmitt sínar framkvæmdir sem hafa beðið.
    Það var gagnrýnt að ekki skyldi vera notað tækifærið til að setja í hafnalögin ákvæði um heildarskipulag við uppbyggingu hafna á öllu landinu, þvert á móti væri verið að leggja til breytingar sem ýtt gætu undir geðþóttaákvarðanir pólitíkusa. Og í síðasta lagi var gagnrýnt að ekki skyldu vera gerðar tillögur um skýrar samskiptareglur ríkis og hafna.
    Þetta var úr umsögn Hafnarfjarðarhafnar og var svolítið dæmigert fyrir það sem menn voru að setja út á við umfjöllun um þessi mál.
    Vegna þess sem kom fram í ræðu hv. 2. þm. Vesturl. um að viss fyrirtæki þyrftu að standa undir kostnaði sem hafnir bæru annars staðar eins og Síldarverksmiðja ríkisins gerir t.d., þá sé ég ástæðu til að rifja upp að það var ítrekað reynt að fá fram breytingar á þessum hlutum í sambandi við það mál sem fór í gegnum þingið í fyrra, þ.e. þegar Síldarverksmiðjur ríkisins voru gerðar að hlutafélagi. Þá var ítrekað reynt að fá stjórnvöld til að fallast á það að leysa þessi mál í tengslum við afgreiðslu þess frv. Það virtist liggja nokkurn veginn í augum uppi að ef ríkið ætlaði á annað borð að leggja hálfan milljarð til að lækka skuldir Síldarverksmiðja ríkisins eins og ákveðið var þá væri full ástæða til að leysa þetta vandamál í leiðinni og að ríkið leysti til sín þessi hafnamannvirki. Þessu var á endanum hafnað við atkvæðagreiðslu hér á hv. Alþingi. En ég segi það eins og er að það hefði kannski verið skynsamlegra að leysa þetta mál, að ríkið hefði þá frekar keypt þessi hafnarmannvirki af Síldarverksmiðjum ríkisins og klárað sig út úr málinu og komið síðan þessum hafnarmannvirkjum í hendurnar á viðkomandi sveitarfélögum heldur en að sitja uppi með málið óklárað. Það mun koma að ríkinu fyrr en seinna að leysa þetta mál, en það tækifæri var ekki notað.
    Ég verð því miður að hryggja hæstv. samgrh. með því að mínar viðbárur og viðbrögð við þessu frv. hafa ekkert breyst. Það hefur svo óskaplega lítið verið komið til móts við þá gagnrýni sem hefur verið lögð fram á þetta frv. og hún hefur verið mjög vel rökstudd. En menn hafa hangið á þessu eins og hundar á roði að hafa þetta allt saman óbreytt. Ég veit ekki hvort það er vegna þess að sú nefnd sem vann þetta frv. hefur svona mikil ítök í hæstv. ráðherra eða hvort hann hefur ekki lagt það á sig að skoða þetta nægilega vel sjálfur að hann hefur ekki fallist á að gera meiri breytingar en hér liggja fyrir.
    En ég vonast til þess, eins og ég sagði áðan og endurtek það, að það komi betri tíð. Og vegna þess að það er greinilega nægilegt ráðrúm og tími í samgn. þá vona ég að menn gefi sér tíma þar til þess að vinna að þessu verkefni. Það liggja ekki það mörg mál fyrir í samgn. og nefndin getur ósköp vel sett töluverða vinnu í að fara yfir þetta mál aftur og það tel ég að hún eigi að gera.