Hafnalög

37. fundur
Þriðjudaginn 16. nóvember 1993, kl. 14:55:15 (1401)

[14:55]
     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég tek þessum orðum hæstv. ráðherra eins og þau eru sögð. Hann sagði það mjög skýrt að frv. væri eins og hann vildi hafa það, 27. gr., og það þýðir einfaldlega að það er ekki hugmyndin að breyta út frá því sem þar er sett fram og það eru verulegar breytingar á kostnaðarþátttöku ríkisins í hinum ýmsu framkvæmdum hafna sem þar koma fram.
    Ég vil svo segja það til viðbótar að það er engin ástæða fyrir hæstv. ráðherra að hafa áhyggjur af því að hv. samgn. muni ekki vinna vel og skipulega að því verkefni að fara yfir þetta aftur. Hann átti ekki að skilja mín orð þannig að ég vildi standa í því að tefja mál þar. Hins vegar átti hann að skilja þau þannig að ég teldi fulla ástæðu til þess að við færum yfir málin aftur og ég hef enga ástæðu til þess að óttast að hv. formaður samgn. muni ekki vera tilbúinn til þess að gera það, að skoða málin upp á nýtt. Það er full ástæða fyrir því og mikill rökstuðningur sem menn hafa í höndunum til að skoða þessa hluti vel. En það þarf ekkert að verða til þess að þetta mál þurfi neitt að daga uppi í þinginu.