Hafnalög

37. fundur
Þriðjudaginn 16. nóvember 1993, kl. 15:11:11 (1403)

[15:11]
     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Hv. 2. þm. Vestf. virtist hafa áhyggjur af að þeir sem mundu eiga hlutafé í

höfnum gætu ekki náð út arðinum sínum. Ég held að það sé gert ráð fyrir því í frv. með hvaða hætti þeir eigi að geta náð arði sínum út. Það er nefnilega gert ráð fyrir því í frv. og sagt beinlínis að hafnir geti verið hluthafar í öðrum fyrirtækjum, sem tengjast starfsemi þeirra. Það stendur skýrum orðum í 8. gr. Og eitthvað hafa þeir sem sömdu frv. verið að hugsa um þetta nánar því í útskýringu sem fylgir 8. gr. stendur m.a.:
    ,,Jafnframt er höfnum heimilað að gerast hluthafar í fyrirtækjum sem tengjast starfsemi þeirra, svo sem fiskmörkuðum, eins og áður er getið um.``
    Það er sem sagt þannig sem hægt er að ná arðinum út, þ.e. höfnin getur staðið í einhvers konar fyrirtækjarekstri meðfram sinni starfsemi. Þá hlýtur nú ýmsum að verða hugsað til þess að þessi fyrirtæki eru byggð upp fyrir almannafé með framlögum og verður það kannski þannig, þegar þetta fyrirkomulag er gengið í gildi, að hafnir geti með ýmsum hætti farið að taka þátt í t.d. kvótakaupum og braski með veiðiheimildir til þess að ná til sín umsvifum í kringum löndun á fiski og vinnslu á sjávarafurðum.
    Eru menn að bjóða upp í þann dans sem því gæti fylgt? Hvað í ósköpunum voru menn eiginlega að hugsa þegar þeir settu þetta á blað? Skýringin hefur aldrei fengist hér fram, hvorki í umræðum í nefndinni eða hv. Alþingi.