Hafnalög

37. fundur
Þriðjudaginn 16. nóvember 1993, kl. 15:37:44 (1409)

[15:37]
     Stefán Guðmundsson :
    Virðulegi forseti. Við erum hér að tala um áhugavert mál sem er frv. til hafnalaga. Það vill nú svo til að ég á sæti í samgn. sem þetta frv. fer til og sjálfsagt get ég þess vegna stytt mál mitt nokkuð. Ég vil þó segja það út af því sem hér hefur komið fram, ég held að það hafi verið hæstv. ráðherra sem gat þess að hann vænti þess að samgn. mundi ekki tefja þetta mál. Ég held að það sé af og frá að ætla það að samgn. muni tefja þetta mál, ég held að það sé engin ástæða til þess að ætla það. En ég held líka að það sé jafnvíst að samgn. mun taka sér þann tíma sem hún nauðsynlega þarf til að skoða málið og gera það betra en það er í dag. Og fyrst svona mjög liggur á, eins og mér skilst á hæstv. samgrh., að það liggi á að fá þetta mál í gegn, þá hefði náttúrlega verið miklu skynsamlegra strax þegar farið var að vinna í þessu máli í ráðuneytinu að byrja að huga að því hverjir ættu að vinna þetta verk, hverja ætti að kalla til ef hann ætlaði að flýta svo mjög fyrir afgreiðslu málsins.
    Það er út af fyrir sig mjög merkilegt og það er kannski ekki heldur í fyrsta skiptið sem maður les það í frumvörpum og verður þess áskynja hvernig ráðherrar velja yfirleitt þessa starfshópa sem yfirfara og móta tillögur í ákveðnum málaflokkum eins og þessum. Ég sé að það er einn krati sem hefur verið kallaður til. Fimm af máttarstólpum íhaldsins eru hins vegar kallaðir þarna til að smíða þetta frv. ( ÓÞÞ: Veistu hvers vagna kratinn er hafður með?) Ég veit það hvers vegna hann var hafður með. Ég held að samgrh. hefði í upphafi átt að vanda sig betur við þessa smíð og kalla fleiri til til þess að reyna að ná bærilegri

sátt um þetta mál og þá hraða þeirri afgreiðslu ef svo mjög liggur á. En ég segi það enn og aftur að samgn. mun áreiðanlega ekki tefja þetta mál. Ég held að formaður nefndarinnar muni sjá til þess, en hann mun líka örugglega sjá til þess að nefndarmenn fái þann tíma sem þeir telja sig þurfa að fá til þess að vinna málið eins og þeim ber.
    Ég skal stikla á stóru, virðulegi forseti, en ég minni hér fyrst á hafnaráðið. Ég hef fyrirvara á því hvernig þær breytingar eru hugsaðar. Ég hef þar töluverðan fyrirvara á. Ég vildi einnig spyrja hæstv. ráðherra vegna þess að það mundi flýta fyrir okkur í nefndarstarfinu. Það snertir 8. gr. frv. þar sem stefnt er að því að hafnir geta verið hluthafar í fyrirtækjum sem tengjast starfsemi þeirra. Mér er spurn: Er það þá ekki alveg skýrt að hafnir sem verða hlutafélög gætu þá orðið hluthafar í fiskmörkuðum, þær gætu orðið hluthafar í útgerðarfyrirtæki, þær gætu orðið hluthafar í fiskvinnslufyrirtæki og þær gætu orðið hluthafar í olíufélögum? Ég gæti haldið áfram að telja upp margs konar aðra starfsemi sem tengist höfnum. En það væri fróðlegt að fá frá smiðum þessa frv. einhverja skýringu á því hvort hér sé ekki rétt athugað að þetta sé opin leið. Þá væri einnig gaman að spyrja eftir að þetta er gert, og ég held að það hafi verið hv. þm. Ingibjörg Pálmadóttir sem spurði: Hvernig verður farið með gjaldskrár þessara hafna eftir að þær eru orðnar að hlutafélögum? Hvernig verður farið með þær gjaldskrár? Ég held nefnilega að það sé verið að rugla dæmið allmikið með þessum málum.
    Ég held að misvægi milli hafna muni aukast alveg gríðarlega og það fer kannski einna verst í mig í þessu að mér finnst vera stefnt markvisst að því að auka mjög misvægi milli hafna. Mér er t.d. spurn, eftir að það gerist og hafnirnar fari sjálfar að ákveða sín gjöld og er mismunað eins og hér er gert á margan hátt. Eftir að hafnargjöldin væru nú orðin lægst hér á Reykjavíkursvæðinu, við skulum segja Reykjavík og Hafnarfirði þar sem langstærsti hluti innflutningsins fer fram, hvernig sæi hæstv. samgrh. það. Við skulum segja á Ísafirði, við skulum segja á Akureyri, Þórshöfn, Skagaströnd og víðar, hvernig færu nú útgerðaraðilar verksmiðjutogaranna að hugsa þegar hafnargjöldin væru orðin jafnmisjöfn og ég sé fyrir mér að þau muni verða með þessum aðgerðum. Hvar mun löndunarhöfn þessara skipa verða? Og, hæstv. ráðherra: Hvað mun þá verða eftir heima í byggðarlögunum?
    Hér er einnig vikið að því í 14. gr. að hafnarsjóðirnir skuli undanþegnir sköttum til sveitarsjóðanna. En hvað til annarra? Hvað til annarra, við skulum segja t.d. ríkisins? Af hverju á bara að undanþiggja þá að greiða skatta til sveitarfélaganna?
    Svo er í 11. gr., ef ég fer aðeins til baka, þetta 25% sérstaka vörugjald sem á að renna í Hafnabótasjóð. Gerðu nefndarmenn sér grein fyrir því að á suma staði á landinu leggst þetta sérstaka vörugjald þrisvar sinnum á vörurnar sem fara út á land? Gerðu menn sér grein fyrir því að þetta mun leggjast í ákveðnum tilvikum þrisvar sinnum á þá vöru sem er innflutt til landsins? Þetta var einmitt staðfest af aðilum sem við þetta búa þegar við kölluðum þá fyrir nefndina á sínum tíma. Gerðu menn sér grein fyrir þessu? Er þetta til þess að auka og jafna það misvægi sem er í vöruverðinu? En ég undirstrika það að þetta er náttúrlega enn og aftur til þess að skekkja mjög samkeppnisstöðu þessara hafna.
    Ég vil einnig víkja að 26. gr. sem er um kostnaðarþátttökuna. Það er auðvitað stórmál og við þurfum að gefa okkur mikinn tíma til þess að fara yfir og skoða og gera athugasemdir hvernig þetta kemur við og hvernig framkvæmdir á hinum ýmsu stöðum standa og hvernig uppgjörsmálin verða við þær hafnir þar sem framkvæmdir eru þegar í gangi. Þannig er mjög margt í þessu, hæstv. ráðherra, sem þarf að huga að. Og ég verð að segja að ég hef ekki fengið þau svör, ekki svo skýr svör sem ég vænti og vil fá áður en ég skrifa undir slíkar tillögur. Ég þarf að fá miklu skýrari svör um tilganginn með breytingunum. Það er alla tíð hægt að vera að breyta og breyta en menn geta ekki bara verið að því til þess að skipa nefnd og breyta og breyta. Það þarf eitthvað að standa á bak við þessar breytingar. Því miður er það svo að í mörgum tilvikum sem skipta máli er þetta algerlega á þveröfugan hátt. Þetta er til þess að skekkja mjög myndina frá því sem hún er í dag og ég sé ekki að það þjóni neinum tilgangi.
    En eins og ég sagði er ég tilbúinn að leggja mikla vinnu í þetta og ég held að það sé algjörlega ástæðulaus ótti hjá hæstv. samgrh. að þetta mál fari ekki eðlilega fram, en það er spurningin um það hvað er eðlilegt.