Hafnalög

37. fundur
Þriðjudaginn 16. nóvember 1993, kl. 16:11:18 (1417)

[16:11]
     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég verð að segja það alveg eins og er að ég átta mig ekki alveg nákvæmlega á því hvernig menn ætla að skilgreina þetta hugtak ,,í þágu hafnar`` úr því að menn eru búnir að lýsa því yfir að fiskmarkaður falli undir þá skilgreiningu að vera í þágu hafnarinnar. Og það er þar sem línan skerst kannski á milli okkar að ég tel að með því að skilgreina fiskmarkað sem starfsemi í þágu hafnarinnar þá séu menn búnir að opna inn á möguleika á því að skilgreina ýmsa aðra starfsemi með sama hætti og þess vegna held ég að það þurfi nú að taka þetta til sérstakrar skoðunar.
    Ég tel líka í tilefni af því sem hv. formaður nefndarinnar sagði áðan um Skemmtibátahöfnina hf. að það sé erfitt og ég segi næstum því ógerlegt að neita mönnum sem standa eðlilega að hafnarframkvæmdum og óska eftir því að þeirra höfn fái reglugerð með eðlilegum hætti þegar um væri að ræða hlutafélagahöfn, sem uppfyllti þær reglur sem hér er verið að setja í lög með þessum hugmyndum, að neita þeim um staðfestingu á að þeir séu að reka löglega höfn. Ég tel að það sé ekki gerlegt og í framhaldi af því mundu þeir auðvitað geta skilgreint sig með þeim hætti sem gert er ráð fyrir í þessu frv., þ.e. þeir ættu ekki að bera gjöld.