Hafnalög

37. fundur
Þriðjudaginn 16. nóvember 1993, kl. 16:18:38 (1422)

[16:18]
     Sturla Böðvarsson :
    Virðulegi forseti. Það verður að segjast eins og er að fátt nýtt hefur komið fram í þessari umræðu frá því sem var þegar þetta frv. til hafnalaga var til umræðu í fyrra. Það er því kannski ekki ástæða til þess að hafa mörg orð um þá umræðu sem hér hefur farið fram. Ég vil þó að sjálfsögðu lýsa yfir fullum stuðningi við það frv. sem hér liggur fyrir og þær brtt. sem hv. samgn. hefur gert á frv. en þær fylgja með frv. eins og það liggur fyrir.
    Þau atriði sem aðallega hefur verið rætt um af hálfu stjórnarandstöðunnar eru athugasemdir um það að eigendur hafna geti verið bæði sveitarfélög og hlutafélög. Ég verð að lýsa yfir undrun minni að stjórnarandstaðan skuli eyða svo miklum tíma í það að ræða það ákvæði að hlutafélög geti átt eða verið aðilar sem eigendur að hafnarsjóðum eða höfnum. Ég held að tímanum hefði verið miklu betur varið í að ræða önnur atriði í þessu merkilega frv. sem vissulega getur markað tímamót.
    En það, sem einkum var rætt um í samgn. þegar hún fjallaði um þetta á síðasta þingi, var mismunandi afstaða til ríkisframlaga til hafnargerðar. Það má segja að það hafi kristallast sá ágreiningur sem er um það mál. Annars vegar komu fram athugasemdir um að það skuli vera breytt hlutdeild ríkisins í tilteknum hafnarframkvæmdum en það er um það að ræða að gert er gert ráð fyrir lækkun á framlagi ríkisins til innri hafnarmannvirkja úr 75% niður í 60% en hins vegar er aukin hlutdeild í öðrum mannvirkjum, svo sem dýpkun hafna, sérbúnað fyrir ekjuskip og ferjur svo og siglingamerki.
    Frv. gerir ráð fyrir því að falla frá framlögum til einstakra þátta svo sem löndunarkrana, hafnarvoga og hafnsögubátum. Því hefur verið mótmælt af ýmsum hafnarstjórnum. Á hinn bóginn hafa svo komið athugasemdir við því að ríkið skuli yfir höfuð veita styrki til hafnargerðar. Þær athugasemdir hafa m.a. komið frá stærstu höfn landsins, Reykjavíkurhöfn. Og mér heyrist á málflutningi hv. 16. þm. Reykv. að hann sé enn við það sama heygarðshorn og hann var hér og hefur væntanlega verið sem stjórnarmaður í hafnarstjórninni í Reykjavík. Frammi fyrir þessum mismunandi áherslum stöndum við þingmenn og það er væntanlega hlutverk okkar að komast að niðurstöðu sem meiri hlutinn vill ná hér í þinginu.
    Hins vegar var það svo í samgn. að frumkvæði formanns samgn. að samkomulag varð um að setja inn ákvæði til bráðabirgða þar sem lögin tækju ekki gildi hvað varðar framlög til hafnarvoga og hafnsögubáta og löndunarkrana fyrr en að liðnu árinu 1994, þannig gefst eðlileg aðlögun fyrir hafnarstjórnir varðandi þau atriði.
    En að öðru leyti vil ég í þessari umræðu mótmæla því harðlega vegna þess að hér var rætt um það að fjárfesting í hafnarmannvirkjum gæti e.t.v. hafa valdið auknum kostnaði við flutninga til landsins og þá væntanlega auknum kostnaði vegna útgerðar frá Íslandi. Ég vil fullyrða að kostnaður útgerða hvort sem um er að ræða kaupskipaútgerð eða fiskiskip er óverulegur miðað við önnur útgjöld sem eru vegna útvegs.
    Megintekjur fiskihafna svo að ég nefni það sem dæmi eru 1% aflamark af aflaverðmæti skipa. Útvegsmenn hafa hins vegar ekki kveinkað sér undan því að greiða allt upp í 6% af aflaverðmæti til fiskmarkaða og allir geta nú ímyndað sér það hvaða fjárfesting liggur annars vegar í hafnargerð sem er forsenda fyrir útgerð og svo hins vegar fiskmörkuðum. Ég vil vekja á þessu athygli vegna þess að í umræðunni hefur það komið fram að menn telja að fjárfesting í hafnargerð á Íslandi geti hafa leitt til of mikils kostnaðar við flutninga að og frá landinu og vegna útgerðar fiskiskipanna. Ég held að menn þurfi að átta sig á þessum staðreyndum og ég vil líka minna menn á það og m.a. hv. 16. þm. Reykv. vegna þeirra orða sem hann hafði og hvatti til þess að draga úr fjárfestingu í hafnargerð að fiskihafnirnar allt í kringum landið leggja algerlega grunninn að þeirri miklu og blómlegu starfsemi sem fram fer hjá Reykjavíkurhöfn, m.a. öllum olíuflutningunum sem fara um Reykjavíkurhöfn. Það fara sennilega um 500--550 þús. tonn af olíu um Reykjavíkurhöfn og tekjur koma til hafnarinnar af þessum olíuflutningum eru verulegar. Og hverjir eru meginnotendur olíu í landinu í dag? Það er fiskiskipaflotinn þannig að ég held að þeir hv. þingmenn hér sem vilja veg Reykjavíkurhafnar sem mestan verða að átta sig á þessari staðreynd. Það er fullkomið samhengi á milli hagsmuna fiskihafnanna í landinu og þeirrar stóru og miklu og mikilvægu hafnar sem Reykjavíkurhöfn er sem vissulega sér um flutninga að og frá landinu. Það hefur orðið sú þróun og það út af fyrir sig held ég að mörgu leyti sé hagstætt að útflutningur á sjávarafurðum hefur aukist frá Reykjavíkurhöfn vegna þess að sá aðili sem sér aðallega um flutning að og frá landinu og sér aðallega um flutning á sjávarafurðum frá landinu hefur valið þann kostinn að auka starfsemi sína í flutningum á landi. Það hefur leitt til þess að sjávarafurðir hafa verið fluttar utan af landi landveg til Reykjavíkur og Hafnarfjarðar og orðið til þess að vörugjöld af útflutningi sjávarafurða hafa aukist stórlega til þeirra hafna. Þetta er auðvitað þróun sem þýðir ekkert að sporna gegn. Hún er væntanlega í þágu hagræðingar og minni tilkostnaðar en ég held að fyrir okkur Íslendinga sem ætlum að nýta auðlindir hafsins allt í kringum landið sé það varasamt ef við ætlum að leggjast gegn eðlilegri uppbyggingu og eðlilegri endurnýjun hafna í landinu. Ég vara við þeirri hugsun. Hins vegar þarf að skoða það hafnalagafrv. sem hér liggur fyrir rækilega og það mun samgn. væntanlega gera, en hv. samgn. hefur hins vegar lagt mikla vinnu á síðasta þingi í að fara ofan í þetta frv. Ég tel að þær breytingar sem hv. nefnd hefur gert tillögu um varðandi frv. séu allar til bóta og þær munu styrkja hafnirnar og gera þeim auðveldara að gegna því viðamikla og mikilvæga hlutverki að sjá til þess að útgerð á Íslandi geti orðið sem hagkvæmust fyrir alla Íslendinga.