Hafnalög

37. fundur
Þriðjudaginn 16. nóvember 1993, kl. 16:27:45 (1423)

[16:27]
     Ingibjörg Pálmadóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. síðasti ræðumaður sagði áðan að ekkert nýtt hefði komið fram í umræðunni og er það satt því að engum spurningum sem hefur verið beint til hæstv. samgrh. hefur verið svarað þannig að það hefur ekki komið neitt nýtt fram. Og sérstaklega kom ekkert nýtt fram í ræðu hv. þm. sem talaði síðast og talaði um að það væri ekki of mikið á útgerðina lagt, það væru bara mjög eðlileg gjöld

og talaði um 1% aflagjald. Ég ætla að lesa hér, með leyfi forseta, hvaða gjöld eru almennt lögð á samkvæmt 11. gr. Greinin hljóðar svo:
    Eftirtalin gjöld skulu greidd fyrir afnot hafna:
    1. Skipagjöld á skip þau og báta er nota viðkomandi höfn: Gjöld miðuð við stærð skipa, dvalartíma á hafnarsvæði o.s.frv., fastagjöld fiskiskips í heimahöfn, hafnsögugjöld, vigtargjöld á allan sjávarafla, gjöld af ferjum.
    2. Vörugjöld af vörum sem umskipað er, lestaðar eða losaðar í höfn, þar á meðal aflagjald sem er vörugjald á sjávarafla sem lagður er á land á hafnasvæðinu.
    3. Leiga fyrir afnot annarra mannvirkja eða tækja hafnarinnar.
    4. Leyfisgjöld fyrir bryggjur og önnur mannvirki sem gerð hafa verið samkvæmt 18. gr.
    5. Lóðargjöld og lóðarleiga.
    6. Sérstök vörugjöld til hafnasjóðs.
    7. Ýmis þjónustugjöld, svo sem fyrir vigtun, móttöku á úrgangi, vatnsölu, rafmagnssölu, festagjöld o.fl.
    Þetta er þetta 1% sem hv. þm. er að tala um og telur mjög lítið. Og afsökunin fyrir því að hann telur þetta mjög lítið er sú að útgerðin sé að borga annars staðar einhvers staðar meira og það sé eðlilegt að leggja á há hafnargjöld vegna þess að það séu einstaka aðilar að borga mikið til fiskmarkaðar.
    Ég skil ekki þessi rök, ég verð að segja það. En ég endurtek að það hefur ekkert nýtt komið fram í þessari umræðu. Ég hef heyrt þetta svo oft áður, að það sé eðlilegt að leggja mikil hafnargjöld vegna þess að útgerðin sé hvort sem er að borga annars staða meira.