Hafnalög

37. fundur
Þriðjudaginn 16. nóvember 1993, kl. 16:42:48 (1429)

[16:42]
     Ingibjörg Pálmadóttir :
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa langt mál hér en þakka aðeins hv. 1. þm. Vesturl. fyrir það að hann kom með svolítið nýtt inn í umræðuna áðan. Hann skýrði loksins út það sem við höfum verið að spyrja um. Við spurðum um það hverju það mundi breyta að hafnirnar yrðu gerðar að hlutafélögum og hann svaraði því að það mundi engu breyta með gjaldskrárnar. Þá spyr ég hv. 1. þm. Vesturl.: Hvaða hópur hluthafa ætlar að koma þarna inn og engu að ráða? Hvaða hópur er það sem þeir eru að markaðssetja þarna inn í hafnirnar ef þeir eiga svo engu að ráða?
    Það er búið að upplýsa hér að þeir eiga ekki að ráða gjaldskránni. Hverju eiga þeir yfir höfuð að ráða í hafnarstjórn, þessir nýju aðilar sem eiga að koma inn og koma með aukið fé? Það væri mjög fróðlegt að fá úr því skorið hér. En það var mjög mikilvægt fyrir okkur þingmenn að fá þetta og líka mikilvægt fyrir þá sem hafa kannski ímyndað sér að það væri hagkvæmt fyrir þá að leggja fjármuni til hafna.
    Ég spyr aftur: Hvaða hluthafahópur er þetta sem hv. þm. býst við að fá inn í hafnirnar þegar þetta er upplýst?