Lögskráning sjómanna

37. fundur
Þriðjudaginn 16. nóvember 1993, kl. 16:48:22 (1432)

[16:48]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) :
    Herra forseti. Það frv. sem hér liggur fyrir var lagt fram á síðasta þingi en varð þá eigi útrætt en er nú endurflutt með lítils háttar breytingum.
    Í lögum um Slysavarnaskóla sjómanna var svohljóðandi ákvæði til bráðabirgða, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Samgönguráðherra skal eigi síðar en 1. febrúar 1993 leggja fram frumvarp til laga um breyting á lögum um lögskráningu sjómanna sem m.a. kveða á um skyldu sjómanna, sem lögskráðir eru, til að hafa

hlotið grundvallarfræðslu um öryggismál í Slysavarnaskóla sjómanna þegar lögskráning fer fram``.
    Með þessu frv. er lagt til að öryggisfræðsla verði gerð að skyldu fyrir alla sjómenn og að lögskráningarstjórar hafi eftirlit með því að menn fullnægi henni.
    Jafnframt er samgrh. heimilað að gera nýliðafræðslu að skilyrði fyrir lögskráningu.
    Eftirtaldir aðilar sendu umsagnir til samgn. Alþingis vegna frumvarps þessa: Sjómannasamband Íslands, Vélstjórafélag Íslands, Samband ísl. kaupskipaútgerðar, Slysavarnafélag Íslands og Landssamband ísl. útvegsmanna.
    Allir umsagnaraðilar mæla með samþykkt frv. en Landssamband ísl. útvegsmanna leggur þó til að frestur nýliða til að sækja öryggisfræðslunámskeið Slysavarnaskólans verði 12 mánuðir í stað 6. Rökin eru þau að menn sæki námskeiðin þegar Sæbjörg fer í árlega hringferð um landið og þá fer hver og einn á námskeið í sínu byggðarlagi.
    Vélstjórafélagið leggur til að frestur til að sækja námskeiðin sem í frv. er til ársloka 1995 fyrir skipstjórnarmenn en 1996 fyrir aðra, verði hinn sami fyrir alla. Frestir í frv. voru ákveðnir í samráði við skólastjóra Slysavarnaskóla Íslands með hliðsjón af fjölda sjómanna og meðalfjölda nemenda undanfarin ár.
    Frv. eins og það liggur fyrir er með þeirri breytingu sem Landssamband ísl. útvegsmanna leggur til, en óbreytt að öðru leyti.
    Ég legg til, hæstv. forseti, að málinu verði vísað til 2. umr. og samgn. og vænti þess að það geti fengið afgreiðslu á þessu þingi.