Lögskráning sjómanna

37. fundur
Þriðjudaginn 16. nóvember 1993, kl. 16:50:45 (1433)

[16:50]
     Guðmundur Hallvarðsson :
    Virðulegi forseti. Ég fagna frv. sem nú er komið fyrir Alþingi í annað sinn og tek undir það sem samgrh. gat um áðan, að það fái skjóta afgreiðslu í ljósi þeirra umsagna sem hafa komið fram frá sjómannasamtökunum.
    Það er þó aðeins eitt sem ég vildi ræða hér og gera að fyrirspurn til samgrh. Í ljósi þeirrar slysatíðni sem nú hefur verið svo mjög um borð í skipum má ætla að þetta frv. leiði til umbóta þar um. Það er hins vegar umhugsunarefni þegar horft er á þá kennslu sem viðhöfð er í Slysavarnaskóla sjómanna sem lýtur að öryggisfræðslunni, að þar hefur kröftum kannski fyrst og fremst verið beint að því hvernig menn skuli yfirgefa skip. Hins vegar sé ég hér í athugasemdum við frv. að gert er ráð fyrir því að það verði þó farið yfir á aðrar brautir og vonandi að svo verði, þ.e. að þau drög sem hafa væntanlega verið samþykkt varðandi öryggi á hafinu, og hefur nú verið fjallað um hjá Siglingamálastofnun, verði lögfest.
    Í sambandi við þá auknu kennslu sem hlýtur að falla á öryggis- og björgunarmál sem snúa að Slysavarnaskóla sjómanna, Sæbjörgu, þá langar mig að spyrja hvort samgrh. hafi hugsað sér einhverja aukafjárveitingu vegna þessa máls. Því þetta frv., þegar gengið verður endanlega frá því til laga, hlýtur að hafa nokkurn kostnað í för með sér varðandi rekstur Slysavarnaskóla sjómanna um borð í Sæbjörgu.
    Að öðru leyti er ég meðmæltur þessu og vona að með breyttri starfstilhögun Slysavarnaskólans, þar sem menn munu nú væntanlega ganga lengra fram um að kenna nýliðum ýmsa verkþætti sjóvinnunnar, dragi úr slysatíðni. En ég vil endurtaka spurningu mína til ráðherra: Hvernig er hugsað að mæta þeim kostnaðarauka sem verður í skólanum?