Áburðarverksmiðja ríkisins

37. fundur
Þriðjudaginn 16. nóvember 1993, kl. 16:54:59 (1435)

[16:54]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Það frv. sem hér liggur fyrir er samið í anda þeirrar almennu stefnu ríkisstjórnarinnar að einkavæða ýmsa þá starfsemi sem opinberir aðilar hafa nú með höndum.
    Þessi stefnumörkun á sér rætur m.a. í að nauðsynlegt er talið að endurskoða fyrirkomulag og rekstrarumhverfi ýmissa fyrirtækja og stofnana hins opinbera.
    Ég gerði rækilega grein fyrir þessum atriðum þegar málið var lagt fyrir á Alþingi fyrir ári síðan og ég sé ekki ástæðu til þess að ítreka þau atriði hér. Málið fékk afgreiðslu í landbn. Ég hef lagt áherslu á að nauðsynlegt sé að reyna að afgreiða málið helst fyrir áramót og vil minna á í því sambandi að eins og nú standa sakir hefur Áburðarverksmiðja ríkisins einkaleyfi á innflutningi á áburði, en það fellur niður þann 1. jan. 1995 í samræmi við samningana um hið Evrópska efnahagssvæði. Ég tel nauðsynlegt til þess að mæta þeim breyttu viðhorfum, og almennt vegna þess að ég tel að það sé heppilegt að rekstur sem þessi sé í hlutafélagsformi og á ábyrgð einkaaðila, að þetta mál komist í höfn allra hluta vegna. Bæði til þess að reyna að tryggja áframhaldandi rekstur Áburðarverksmiðjunnar og eins þar sem ég tel að þessi breyting hafi hvort tveggja í för með sér, að greiða fyrir því að Áburðarverksmiðjan geti hafið nýja framleiðslu, farið inn á nýjar brautir í starfsemi sinni, sem er mjög fjarlægt ef litið er til þess að hún sé áfram rekin sem opinber stofnun, og hins vegar til þess að greiða fyrir því að hún geti þegar í stað tekist á við nauðsynlegar breytingar vegna þess að einkaleyfið verður fellt niður.
    Ég legg til, hæstv. forseti, að málinu verði vísað til 2. umr. og landbn.