Vernd og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

37. fundur
Þriðjudaginn 16. nóvember 1993, kl. 18:11:51 (1446)

[18:11]
     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að takast neitt á við hv. þm. Ólaf Þ. Þórðarson út af spurningunni um stjórnarskrárákvæði í tengslum við umsýslu af stjórnarráðsins hálfu yfir einstökum dýrategundum. Það er vafalaust efni í lærðar ritgerðir að fara yfir þau efni. Það breytir hins vegar engu um það viðhorf sem ég túlkað hér um hvað ég teldi eðlilegt í þessum efnum og það er margt sem ég tel eðlilegt sem þingmenn í þessari virðulegu stofnun telja að sé lögverndað eða stjórnarskrárverndað vegna eignarréttarákvæða stjórnarskrárinnar. Þar á meðal orka í fallvötnum og jarðhiti í iðrum jarðar o.s.frv. sem menn hafa reynt að halda í með vísun í stjórnarskrárákvæði 67. gr. Þannig að það breytir ekki neinu um grundvallarviðhorf. Hitt er annað mál við hvað menn ráða af fjárhagslegum ástæðum ef farið er í að láta reyna á slík efni.
    Að því er varðar hreindýraveiðar þá get ég tekið undir að þar hefur margt verið öðruvísi en skyldi í þeim efnum. Margt sem þarf að færa til betri vegar. Bæði varðandi veiðarnar og það sem ekki síður er vandamál, sú umferð á landinu sem tengist þessum veiðiskap sem fer fyrst og fremst fram í mínu kjördæmi og í grennd, nánast alveg innan marka þess, þó að hreindýr slæðist aðeins norður fyrir þau. Þar er sjálfsagt að reyna að ráða bót á og ég skal ekki leggja mat á það kerfi sem hér er verið að innleiða en ég vona þó að það verði til bóta. Ég held að um það sé líka þokkaleg sátt orðin og ég vona að það verði til þess að það verði í betra horfi. Hitt er svo annað mál hvort umhvrn. (Forseti hringir.), virðulegi forseti, á að vera ráðuneytið sem ,,forvaltar``, það er svo annað mál, það er ekki víst að það falli inn í þann ramma sem ég var að draga í mínum orðum sem hinn eðlilega.