Vernd og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

37. fundur
Þriðjudaginn 16. nóvember 1993, kl. 18:14:25 (1447)

[18:14]
     Ólafur Þ. Þórðarson (andsvar) :
    Herra forseti. Mín skoðun á umhvrn. er að það sé fyrst og fremst eftirlitsráðuneyti, þannig muni það starfa best. Mér er ljóst að menn hafa misjafnt álit á 67. gr. stjórnarskrárinnar sem er þó það merkileg að engin almenn lög munu breyta henni. Innan þess ramma sem hún setur ber Alþingi að starfa. Taki menn ákvörðun um það að koma fram einhverjum vilja sem er andstæður þessari grein þá þarf að sjálfsögðu að fara í það að breyta stjórnarskránni.
    Varðandi eignarrétt í iðrum jarðar sem hér var minnst á þá finnst mér að þar megi gjarnan horfa á þá staðreynd að í þinglýstum skjölum er ekki talað um kúbikmetra heldur um fermetra og af því verður ekki annað ráðið en að það sé yfirborðið í vissri þykkt sem sé eignarréttur á. Hefði verið ætlunin að menn hefðu súlu niður að miðbiki jarðar þá hefði að sjálfsögðu þurft að setja þetta upp í kúbikmetrum og út frá því að þinglýsa skjölunum, þannig að mér finnst það vera út í hött. En ríkisvaldið hefur sett lög um skattheimtu þar sem eignir eru skattlagðar og Fasteignamatið hefur starfað eftir því við undirbúning framkvæmda á þessum skatti, m.a. með því að meta hlunnindi inn í verð jarða. Meðan svo er hlýtur það að vera hluti af eignarréttinum og mér finnst mjög óeðlilegt að rjúfa það úr tengslum við þá atvinnustarfsemi sem þar er um að ræða.