Vernd og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

37. fundur
Þriðjudaginn 16. nóvember 1993, kl. 18:24:33 (1452)

[18:24]
     Árni M. Mathiesen :
    Hæstv. forseti. Ég get ekki annað en komið í ræðustól og fagnað því að þetta frv. hefur verið lagt fram og mælt fyrir því enn á ný. Það sýndu atburðir sl. sumars að ekki er vanþörf á því að við endurskoðum þá löggjöf sem hér um ræðir og gerum hana greinilegri. Mér virðist sem hæstv. umhvrh. ætli ekki að bregðast okkur í því efni því hann hefur þegar lagt fram tvö frv., annars vegar frv. til laga um dýravernd og hins vegar það frv. sem hér um ræðir, um verndun, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum öðrum en hvölum.
    Það virðist sem hæstv. umhvrh. ætli að geta sér gott orð í þessum efnum snemma á sínum starfsferli og þó að þessi frv. hafi að stofni til verið samin af hæstv. fyrrv. umhvrh. þá er ég viss um að hann sér ekkert eftir þeim heiðri til hæstv. núv. umhvrh. Það kveður reyndar svo rammt af þessu orðspori hæstv. umhvrh. að í útvarpsþætti á dögunum þar sem spurning dagsins var hvað karlfugl rjúpunnar héti, þá svaraði einn sem hringdi inn að karlfuglinn héti össur og er ég ekki viss um að það sé hægt að hæla hæstv. umhvrh. meira í þessum efnum heldur en þarna kemur fram. ( HG: Það þarf að skýra þetta.) Ég held að það þurfi ekkert að skýra þetta fyrir hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni, ég held að hann hafi nægjanlegt vit til þess að finna það út sjálfur einn og óstuddur.
    En ég vil taka undir þau verndunarsjónarmið sem hér koma fram í frv. en ég hef þó nokkrar athugasemdir við það stjórnkerfi sem lagt er til að beitt sé í þessum efnum. Þetta eru ekki margar athugasemdir sem ég ætla að fara út í en langar þó örlítið að tefja tíma þingsins með því.
    Ég hef svolitlar áhyggjur af því hvernig samskiptum ráðuneyta vegna þessa frv., ef að lögum verður, er háttað. Þá er það fyrst til að telja að í 4. mgr. 7. gr. segir: ,,Umhverfisráðherra skal setja reglugerð um sölu, inn- og útflutning villtra dýra og hluta þeirra, svo og egg.``

    Þarna held ég að séu hugsanlegir möguleikar á árekstrum, ekki aðeins við eitt ráðuneyti heldur við tvö ráðuneyti. Það liggur auðvitað í augum uppi að það gætu verið árekstrar við landbrn. sem fer með sjúkdómavarnir dýra varðandi innflutning á villtum dýrum og held ég að það sé nauðsynlegt að það fari ekkert á milli mála hvar þeim málum á að vera komið fyrir. En varðandi sölu og útflutning á villtum dýrum þá sýnist mér miðað við atburði sl. sumars þegar formaður flokks hæstv. umhvrh. gegndi um tíma ráðherrastóli hæstv. viðskrh. þá komu upp deilur einmitt um sölu og innflutningsmál, ekki á villtum dýrum heldur á afurðum húsdýra. Ekki vildi ég sjá þá fara í hár saman, hæstv. utanrrh. og hæstv. umhvrh. og þætti mér gott ef ráðherrann gæti glöggvað okkur aðeins betur á því hvernig hann hefur hugsað sér þessa grein.
    Í V. kafla 11. gr. er fjallað um gjald vegna veiðikorta. Ég hef nokkrar efasemdir um réttmæti þessa sérstaklega vegna þess að hér væri um að ræða markaðan tekjustofn og ég hef efasemdir um það að markaðir tekjustofnar séu rétta fjáröflunarleið hins opinbera almennt talað. Á tímum þrengina þegar nauðsynlegt getur reynst að skera niður eða takmarka þá geta markaðir tekjustofnar verið okkur fjötur um fót.
    Ég hef einnig efasemdir vegna þessarar lagagreinar út frá því sjónarmiði að hér erum við að láta greiða gjald fyrir nýtingu auðlindar sem áður hefur verið gjaldfrjáls og þá væri þetta gjald jafnt greitt af þeim sem eru landeigendur þess lands þar sem veiðarnar fara fram á. Því sýnist mér að hæstv. umhvrh. sé að smygla inn á okkur veiðigjaldinu svokallaða sem við höfum rætt um í sambandi við fiskveiðarnar í örlítið breyttu formi og hann mundi hugsanlega vilja nota þetta sem fordæmi í einhverju sem síðar kæmi í málefnum annarra ráðuneyta. Ég held að það væri betur að við forðuðumst það ef það er einhver misskilingur í því hjá mér í þessu efni.
    Þetta gefur ráðherranum talsverð völd, hann getur ráðið því hversu hátt gjaldið er og ef það á eingöngu að vera nokkurs konar umsýslugjald og gjald til þess að styðja rannsóknir á þeim dýrastofnum sem veiðar fara fram á þá held ég að það gæti verið ráð að marka þessu þrengri bás heldur en hér er gert þannig að það sé hægt að vita nokkurn veginn fyrir fram hver upphæð gjalda sem þessara ætti að vera.
    Þetta snertir auðvitað líka eignarréttinn á landi og nýtingu lands og réttindi þeirra sem eiga þessi lönd. Mér hefði verið hugnanlegra ef það þarf endilega að eiga sér stað einhver gjaldtaka í þessu efni, þá færi hún fram á vegum landeigendanna og væri þá frekar sniðin eftir því hvernig við högum laxveiði í ám og vötnum heldur en í því formi sem hér er í frv.
    Í 16. gr. er fjallað um seli. Það hefur áður verið minnst á það í þessari umræðu að það séu fleiri ráðuneyti sem að kunni að koma og nauðsynlegt að þær greinar sem um þetta fjalla séu skýrar. En það gæti verið að mál eins og þetta yrði ekki eins mikill ásteytingarsteinn ef eignarréttarákvæðin og réttindi landeigandans væru ákveðnari í þessu frv. heldur en mér sýnist koma fram í sumum þeirra greina sem ég hef fjallað um hér áður og reyndar í öðrum eins og í 14. gr. þar sem fjallað er um hreindýrin. Ég skal ekki fara frekar út í það núna.
    Hv. 4. þm. Austurl. fór örfáum orðum um afgreiðslu þessa máls. Efnislega sagðist hann ekki geta sagt fyrir um það hvernig gengi að afgreiða málið út úr nefndinni. Ég verð nú að segja að mér þætti það vera hv. umhvn. til háborinnar skammar ef hún gæti ekki á þriðja þinginu sem þetta frv. er lagt fram, skilað því frá sér alla vega á þann hátt að Alþingi gæti tekið afstöðu til þess sem nefndin mundi vilja láta frá sér fara. Ég er sannfærður um að undir forustu nýs formanns nefndarinnar, hv. þm. Kristínar Einarsdóttur, þá mun nefndin vinna ötullega að því að fá niðurstöðu í málinu og koma því til umfjöllunar hér í þingsölum til þess að afgreiða það á þessu þingi.