Vernd og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

37. fundur
Þriðjudaginn 16. nóvember 1993, kl. 18:33:53 (1453)

[18:33]
     Margrét Frímannsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég fagna því að þetta frv. er komið hér enn einu sinni og treysti því að eftir langan undirbúning verði það nú að lokum afgreitt. En það eru aðeins örfáar spurningar sem ég vildi beina til hæstv. umhvrh.
    Það er í fyrsta lagi varðandi athugasemd um 7. gr. frv. þar sem segir: ,,Einnig skal í reglugerðum kveðið á um hefðbundnar nytjar, svo sem æðarrækt, kópaveiði, lunda- og fýlaveiðar, eggnytjar á bjargfugli o.s.frv.`` Mun skráningu þessara veiða verða háttað eftir þeim ákvæðum sem sett eru í 11. gr. frv. þannig að við fáum nákvæmar skýrslur um hlunnindaveiði jafnt og aðrar veiðar?
    Þá vil ég spyrja um 10. gr. þar sem segir í athugasemd um þá grein: ,,Sú regla skal og gilda að veiðimenn hirði bráð sína hvort sem dýr hefur verið veitt vegna afurðanna eða til þess að koma í veg fyrir tjón.`` Mun þessi regla, þetta ákvæði 10. gr., gilda gagnvart selveiðum þar sem fram kemur í 16. gr. að sjútvrn. fari með selveiðar, yfirumsjón með selveiðum, og er ætlað að hafa umsjón, stjórna þeim aðgerðum af opinberri hálfu, sem ætlað er að hafa áhrif á stofnstærð og úrvinnslu sela eða tjón af þeirra völdum, sem sagt að hafa eftirlit með selveiðum.
    Ég fagna því vissulega því að menn virðast ekki vera á eitt sáttir um það hvort hringormanefnd sé opinber nefnd stjórnað af sjútvrn. eða hvort hún er sjálfstætt apparat sem tekur sér sitt eigið vald til þess að fara með selastofna við landið. Þess vegna vildi ég fá að heyra, og vísa til þeirra frétta sem hafa komið í fjölmiðlum að undanförnu um seladráp, hvort þetta ákvæði 10. gr. muni gilda gagnvart selveiðum?
    Mér finnst að í þessu frv. sé annars vegar verið að tala um veiðar á villtum dýrum og hins vegar um hlunnindi og veiðirétt. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort það er ekki alveg öruggt að reglubundin skráning veiða fari fram hvort sem um er að ræða hlunnindi og veiðirétthafa eða annars konar veiðar. Þá langar mig til að vita hvernig eftirliti verður háttað, þar sem segir í athugasemd um 19. gr.: ,,Um töku andar- og gæsareggja gilda þau ákvæði að minnst skuli skilin eftir fjögur egg í andarhreiðri og tvö í gæsarhreiðri.`` Síðan er upptalning á hinum ýmsu tegundum anda sem hér eru og sagt að það sé ekki heimild til þess að flytja út andaregg, ekki að gefa þau eða selja en í undantekningartilvikum er útflutningur leyfður. Hvernig er eftirliti með þessu háttað, þar sem segir:
    ,,Bann er lagt við því að veiðirétthafi dreifi andareggjum til annarra hvort sem er með sölu eða gjöfum.``
    Hvernig mun hæstv. ráðherra láta standa að eftirliti? Ég býst ekki við að hann standi í því sjálfur, en hvernig verður staðið að eftirliti? Og enn og aftur, eiga þessir einstaklingar sem búa við ákveðin hlunnindi að skila skýrslum um sín hlunnindi? Ég spyr vegna þess að ég lagði hér fram 2 eða 3 ár í röð fsp. um hlunnindatekjur bænda á ríkisjörðum og hélt að það væri einföld útskrift. Þetta átti að vera eftir skattumdæmum. Ég hélt að það væri einföld tölvuútskrift sem fjmrh. gæti útvegað mér, en svo virðist ekki vera. Það er útilokað að fá svör við því hverjar séu hlunnindatekjur bænda á ríkisjörðum og hvers konar hlunnindi sé um að ræða. Þess vegna spyr ég.