Vernd og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

37. fundur
Þriðjudaginn 16. nóvember 1993, kl. 19:11:26 (1456)

[19:11]
     Ingi Björn Albertsson :
    Hæstv. forseti. Ráðherra misskildi mig örlítið. Þó að ég reyndi að vera nokkuð skýr á því þegar ég var að tala um samráð við skotveiðimenn, þá tók ég það skýrt fram að það samráð hefði átt að felast í því að þeir hefðu tekið þátt í starfinu frá upphafi. Þeim var hins vegar sent bréf 4. júlí 1991. Ég var mjög vel meðvitaður um það mál. Ég hefði hins vegar viljað sjá þá aðila inni í þessu máli frá upphafi. En það er auðvitað ekki mál þess ráðherra sem nú situr í sæti umhvrh. því að hann tekur við þessu frv. og lagar það og hefur fært það til betri vegar frá því sem það var upphaflega.
    Hæstv. ráðherra talar um að það eigi ekkert eftirlit að vera með þessu og mér þykir það gott þegar ráðherrar treysta fólki svo vel. Ég hef ekki orðið var við að þessa trausts gæti hjá ýmsum öðrum ráðherrum og menn hafa kvartað mjög undan því að það sé einmitt skortur á eftirliti, til að mynda í virðisaukaskattskerfinu. Þar ríkir ekki þetta traust. Það er til eitthvað sem heitir veiðieftirlit og þar fram eftir götum þannig að ég held að það sé mjög vafasöm yfirlýsing af hálfu ráðherra að hann ætli að beita sér fyrst og fremst fyrir því að þarna ríki gagnkvæmt traust. Við vitum alltaf að það er misjafn sauður í mörgu fé og það verður auðvitað að fylgjast með þessu.
    Ég ætla ekkert að hártogast við hæstv. ráðherra um afstöðu hv. þm. Gunnlaugs Stefánssonar. Ég ætla einfaldlega að afhenda ráðherra þingtíðindin og hann getur lesið þetta yfir því að þau atriði sem hv. þm. var þar að gagnrýna eru enn til staðar. En ég hlífði þinginu við því að vera að lesa þetta upp áðan og ætla að gera það áfram.
    Það kom einnig fram hjá ráðherra að hann sér fyrir sér gjaldtökuna sem 1 þús. kr. Það í sjálfu sér skiptir engu máli hvaða tölu hann nefnir því að heimildin er alveg jafnopin eftir sem áður. Þessi gjaldtaka getur verið orðin 5 þús. kr. árið eftir eða 5 þús. kr. þegar kortið loksins kemst á. Þetta er vissulega ein hugmynd en það er ekki aðalmálið. Aðalmálið er það að þarna er opin heimild og hvað sem ráðherrann segir þá er verið að skattleggja skotveiðimenn. Það er alveg á hreinu. Þessi skattur leggst eingöngu á

skotveiðimenn og það eru þá skotveiðimennirnir sem eiga auðvitað að greiða fyrir þessar rannsóknir.
    Ráðherra kom hér aðeins inn á fjölskotabyssurnar. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Veit hann hve margar löglegar fjölskotabyssur eru til í landinu? Eru til tölur yfir það? Ég er nefnilega hræddur um að löglegar slíkar byssur séu ansi margar og það verði nokkuð erfitt að framfylgja þessu eins og ég gat um áðan í minni fyrri ræðu.
    Ég er alveg sammála ráðherra um að þeir sem taka þátt í námskeiðum eigi að borga fyrir þau og ég er líka alveg sammála ráðherra í því að aukin menntun er af hinu góða. Það var alls ekki það sem ég var að gagnrýna hér áðan. ( Umhvrh.: Í flestum tilfellum.) Flestum tilfellum, já, já, í langflestum sem betur fer. Það er ekki það sem ég var að gagnrýna hér áðan. Ég var að spyrjast fyrir um það hvort það ætti að leggja þá skyldu á alla þessa 15 þúsund aðila sem um er getið hér í greinargerðinni, að þeir sæki þessi námskeið, þeir fari í hæfnisprófið og prófið um veiðar og líferni á villtum dýrum. Það var það sem ég var að spyrja um. En ég var ekki að gagnrýna það að menn öðlist og sækist eftir frekari menntun. Hún er af hinu góða.
    Ég er líka alveg sammála því að það á að setja sem ítarlegastar reglur um veiðar, en þær eiga bara að koma fram í þessum lögum og ráðherra veit það alveg jafn vel og ég að segja má að Alþingi sitji allt árið. Ef einhver stór mál koma upp þá er ekki mikið vandamál að kalla Alþingi saman en ég sé bara ekki slík stórmál koma upp. Og það frí sem Alþingi hefur eða sá tími sem þingið ekki situr, eru kannski fjórir mánuðir eða eitthvað slíkt. Mér finnst það engin rök fyrir því að hafa allar þessar reglugerðir og þá opnun sem þar skapast og ég fagna því að ráðherra tók undir það að það ætti að reyna að fækka þessum reglugerðum og ég vona að fulltrúar í umhvn. hafi tekið eftir því.
    Að lokum vil ég spyrja ráðherra af því að ég spurði hann að því hér áðan og hann hefur kannski ekki heyrt það eða gleymt því, að það var í 9. gr. þar sem er talað um hvað er óheimilt að nota við veiðar. Það var um hundana annars vegar, hvort honum þyki það ekki eðlilegt að menn megi nota hunda til þess að hlífa skepnunum við þeim þjáningum sem þær verða fyrir, ef þær ná að fela sig særðar, liggja ekki þar í sárum sínum og deyja drottni sínum. Og hins vegar í 10. gr. þar sem talað er um það að veiðimanni beri að elta særða bráð og aflífa hana sem er auðvitað eðlilegt. En fari hún inn á landareign bónda, þó það sé ekki nema 5 sm, þá ber veiðimönnum í fyrsta lagi að aflífa hana og í öðru lagi að labba heim að bóndabæ og afhenda honum þessa einu rjúpu. Það er alveg fortakslaust í lögunum og ég ætla að lesa þessa setningu fyrir hæstv. ráðherra eða þessa grein:
    ,,Særi veiðimaður dýr ber honum að elta það strax uppi og aflífa ef þess er nokkur kostur. Ákvæði þetta gildir einnig þó að sært dýr fari inn á landareign sem veiðimaður hefur ekki leyfi til að veiða á og er þá bráð eign landeiganda`` o.s.frv.
    Finnst ráðherra þetta eðlilegt? Mér finnst þetta gersamlega út úr öllu korti.
    Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta frv. en ég vona enn á ný að hv. umhvn. geri á því nokkrar bætur.