Endurgreiðsla lyfja- og lækniskostnaðar

38. fundur
Miðvikudaginn 17. nóvember 1993, kl. 13:33:14 (1459)

[13:33]
     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Ég sný máli mínu til hæstv. fjmrh. þar sem hæstv. heilbrrh. er ekki við og ég tel það miðað við eðli málsins eðlilegt.
    Í dagblaði hæstv. heilbrrh. í dag er skýrt frá endurgreiðslu Tryggingastofnunar ríkisins til 122 einstaklinga vegna óhóflegs kostnaðar við lyfjakaup og læknishjálp á fyrri hluta þessa árs. Hefur þessi kostnaður farið upp í allt að 100 þús. kr. hjá einni fjölskyldu. Alls bárust um 500 umsóknir en 122 fá endurgreiðslu. Við úrskurð um rétt manna til endurgreiðslu er tekið tillit til tekna. Tekjur miðast við árstekjur árið á undan en grunnkostnaður miðast við hálft almanaksár í senn. Ljóst er að hér hlýtur að vera til athugunar greiðslugeta þeirra sem hér eiga hlut að máli.
    Með lögum um staðgreiðslu skatta varð sú breyting á að menn sjá aldrei ríflega þriðja hluta tekna sinna nema sem tölur á blaði. Brúttótekjur eru því ekki mælikvarði á raunverulega greiðslugetu þar sem stór hluti teknanna hefur þegar verið greiddur til samfélagsins. Því er spurning mín þessi:
    Er sá hluti sem þegar er kominn í sameiginlega sjóði landsmanna reiknaður með tekjum þegar endurgreiðsla vegna lyfja- og lækniskostnaðar er metin?